Hoppa yfir valmynd
23. desember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hver fær stærstu jólagjöfina?

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 21. desember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Jólakrans

Á sama tíma og meginhugmyndin að baki jólunum er andlegs eðlis er því ekki að neita að þeim fylgir núorðið talsvert veraldlegt stúss.

Þetta má sjá af ýmsum opinberum tölum sem veita ófullkomna en þó upplýsandi innsýn í hátíðarhöldin. Það kemur líklega fæstum á óvart að velta í bókabúðum, hljómplötu-, skartgripa- og leikfangaverslunum og atvinnugreinum sem þessum varningi tengjast er mun meiri í kring um jólin en á öðrum árstímum. Þar getur upp undir helmingur ársveltunnar verið á síðasta skatttímabili ársins (nóv.-des.).

Þannig er um margar atvinnugreinar sem tengjast jólagjöfum og jólasiðum. Engan undrar heldur að starfsemi skemmtigarða sé í nokkurri lægð á síðustu mánuðum ársins. Hið sama gildir til dæmis um starfsemi tjaldsvæða auk þess sem útleiga á gripahúsum til gistingar hefur alveg dottið niður.

Landsmenn eru töluvert með veskið á lofti í undirbúningi jólahátíðarinnar. Þó sýna hagtölur að það er goðsögn að jólahátíðin sé að miklu leyti fjármögnuð með kreditkortum. Þannig var kreditkortareikningur landsmanna í janúar í ár, þegar stærsti hluti jólaveltunnar frá í fyrra kom til greiðslu, um 4 milljörðum hærri en í venjulegum mánuði ársins á undan meðan debetkortin stóðu fyrir 9 milljarða útgjöldum í jólamánuðinum í fyrra umfram venjulegan mánuð.

Því virðist mega draga þá ályktun að kreditkortin standi einungis fyrir um þriðjungi af viðbótarútgjöldum heimilanna vegna jólanna. Kortaklippir hefur á undanförnum árum verið að lauma sér inn í hóp gömlu jólasveinanna undir því yfirskyni að hann hrelli almenning eins og hinir. Þessar upplýsingar benda til þess að eins fari fyrir honum og Plútó meðal reikistjarnanna, að hann verði lækkaður í tign og gerður að aukvisa.

Engu að síður fylgja jólunum jafnan mikil umsvif. Markaðurinn reynir að geta sér til um umfang þeirra og lærðar rannsóknastofnanir reyna meira að segja að spá fyrir um vinsælustu jólagjöfina. Þetta er væntanlega gert til að minnka óvissu en hún dregur úr hagvexti. Hvort minni óvissa er eins vinsæl hjá þeim sem gjafirnar fá er hins vegar ekki vitað.

Jólagleði og jólagjafagleði landsmanna draga vissulega björg í bú fyrir ríkissjóð þannig að þó hann fái kannski ekki vinsælustu jólagjöfina þá fær hann allavega þá stærstu. Það gerir honum mögulegt að sinna af krafti þeim mikilvægu samfélagslegu verkefnum sem honum eru falin enda sælla að gefa en þiggja.

Vefritið óskar lesendum sínum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Næsta vefrit kemur út 4. janúar 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum