Hoppa yfir valmynd
21. desember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ívilnanir fyrir umhverfisvæna orkugjafa og ökutæki

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 21. desember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á nýliðnu haustþingi voru afgreiddar frá Alþingi tvær lagabreytingar sem snúa að framlengingu ívilnana fyrir umhverfisvæna orkugjafa og ökutæki.

Annars vegar var framlengd tímabundin heimild til að lækka vörugjald af bifreiðum með vélar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu. Skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið eru mun minni en eldsneytis úr olíum en innflutningsverð slíkra bifreiða er nokkru hærra en hefðbundinna ökutækja.

Hins vegar var framlengd heimild til endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts af nýjum hópferðabifreiðum sem búnar eru vélum sem uppfylla gæðastaðla um nýtingu eldsneytis og umhverfisáhrif (EUROIII).

Í báðum tilvikum er um að ræða framlengingu ívilnana um tvö ár, eða til 31. desember 2008.

Auk ofangreinds er fyrir hendi ákvæði í lögum um vörugjald af ökutækjum sem kveður á um að ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem raforku eða vetni, skuli vera undanþegin vörugjaldi og gildir sú undanþága til 31. desember 2008.

Með þeim lagabreytingum sem samþykktar voru á nýliðnu haustþingi var því verið að samræma gildistíma allra þessara tímabundnu ívilnana sem snúa að umhverfisvænum orkugjöfum og ökutækjum, til 31. desember 2008. Fyrir þann tíma gefst svigrúm til að marka framtíðarstefnu stjórnvalda í tengslum við undanþágur frá sköttum og opinberum gjöldum fyrir umhverfisvæna orkugjafa og ökutæki.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum