Hoppa yfir valmynd
18. desember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tímabundin lækkun olíugjalds framlengd

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. desember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Með lögum sem Alþingi samþykkti hinn 9. desember síðastliðinn var tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjaldsins úr 45 kr. í 41 kr. framlengd til 31. desember 2007.

Þegar lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl. voru sett var fjárhæð olíugjaldsins ákvörðuð 45 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu. Lögin miðuðu að því að útsöluverð á dísilolíu yrði ívið lægra en á bensíni með það að markmiði að gera dísilknúnar fólksbifreiðar ákjósanlegan kost við val á einkabifreið. Vegna óhagstæðrar þróunar á heimsmarkaðsverði á dísilolíu, samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni, var olíugjaldið lækkað tímabundið, úr 45 kr. í 41 kr., með lögum nr. 70/2005. Gilti sú tímabundna lækkun upphaflega í sex mánuði frá gildistöku laganna um olíugjald og kílómetragjald, þ.e. frá 1. júlí til 31. desember 2005 en hefur síðan verið framlengd þrisvar.

Frá því að olíugjald var tekið upp hefur heimsmarkaðsverð á dísilolíu oftar en ekki verið hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Spár gera ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á dísilolíu verði á næstu missirum að jafnaði hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni en hafa þarf í huga að erfitt er að spá fyrir um þróun heimsmarkaðsverðs á bensíni og dísilolíu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum