Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 23. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í umræðum um þjóðlendumál heyrist því stundum fleygt að ríkið standi fyrir stórfelldri eignaupptöku og sé af mikilli óbilgirni að reyna að sölsa undir sig landsvæði sem einstaklingar eða lögaðilar hafi landamerkjabréf og þinglýstar eignarheimildir fyrir.

Er þá jafnvel fullyrt að ríkið hafi ekkert lært þótt það hafi verið gert afturreka með slíka kröfugerð fyrir dómstólum. Í málflutningi af þessu tagi gætir mikils misskilnings.

Í fyrsta lagi má minna á að ríkið ákveður ekki einhliða hvaða landsvæði teljist vera þjóðlendur. Óháður úrskurðaraðili, óbyggðanefnd, úrskurðar þar um á stjórnsýslustigi, en unnt er að skjóta niðurstöðum óbyggðanefndar til dómstóla sem eiga þá síðasta orðið. Tilgangur þess ferlis sem þjóðlendulög kveða á um er einmitt að óvissu verði eytt um það hvaða land teljist vera eignarland sem háð er einkaeignarrétti og hvaða land teljist til þjóðlendna, en þjóðlenda er landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.

Í öðru lagi má benda á að, ólíkt því sem fullyrt er, þá verður ráðið af þeim dómum sem þegar hafa gengið að landamerkjabréf nægi almennt ekki eitt sér til sönnunar á eignarrétti, sérstaklega að því er varðar merki jarða í átt að óbyggðum, heldur verði þá og að líta til þess hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, auk þess skiptir máli hvernig landslagi er háttað og hvort líkur séu fyrir því að um hafi verið að ræða heildstæð not lands. Sönnunarbyrði um merki jarða í átt að óbyggðum er talin hvíla á jarðeiganda. Dómstólar hafa með öðrum orðum dæmt að menn hafi ekki með því að gera landamerkjabréf einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Öðru máli gegnir almennt um gildi landamerkjabréfs ef það er áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða.

Í þriðja lagi þarf að hafa hugfast að þótt tiltekið landsvæði sé ekki talið vera eignarland, heldur þjóðlenda, þá kunna einstaklingar eða lögaðilar eftir sem áður að hafa þar takmörkuð eignarréttindi, svo sem upprekstrarrétt, veiðirétt eða annan afnotarétt. Enginn er m.ö.o. sviptur þeim eignarréttindum sem hann reynist hafa átt fyrir.

Loks skal á það minnt að samkvæmt þjóðlendulögum er það hlutverk fyrirsvarsaðila ríkisins í þjóðlendumálum að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur fyrir óbyggðanefnd. Lögum samkvæmt er íslenska ríkið eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Á fyrirsvarsaðilum ríkisins hvílir því sú skylda í þessum efnum að halda fram hagsmunum ríkisins og bera undir úrskurðaraðila þau álita- og ágreiningsmál sem uppi kunna að vera. Til þess að fá úr slíkum málum leyst þarf að hafa uppi þjóðlendukröfur.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum