Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Starfsumhverfi ríkisstarfsmanna kortlagt

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 9. nóvember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í dag hófst viðamikil viðhorfskönnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna, en spurningalistar hafa verið sendir til um 12.000 starfsmanna ríkisins á tæplega 150 vinnustöðum.

Könnuninni er ætlað að athuga viðhorf til þátta er varða starfsumhverfi, en þetta eru atriði eins og starfsánægja, starfsþróun, vinnuaðstaða, laun, vinnuálag, streita, stjórnun o.fl. Til viðbótar verða forstöðumenn ríkisstofnana sérstaklega spurðir um starfsmannamál og stjórnunaraðferðir stofnana sinna.

Könnunin, sem er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og ParX viðskiptaráðgjafar IBM, mun gefa mikilvæga innsýn í stöðu starfsmannamála hjá stofnunum ríkisins. Um sambærilega könnun er að ræða og framkvæmd var árið 1998 undir heitinu „Starfsumhverfi ríkisstarfsmanna við aldarhvörf“. Hér fást því mikilvægar upplýsingar um hvernig starfsumhverfi ríkisstarfsmanna hefur breyst og þróast á tímabilinu.

Niðurstöðurnar verða gefnar út vorið 2007 þar sem gerð verður grein fyrir stöðu mála hjá ríkinu í heild. Þátttökustofnanir fá einnig sendar stuttar samantektir úr könnuninni þar sem þær geta borið sig saman við niðurstöðurnar í heild. Til viðbótar eiga stofnanir þess kost að vinna ítarlegri greiningu úr þeim upplýsingum sem könnunin veitir.

Könnunin verður að mestu lögð fyrir á netinu en þeim starfsmönnum sem ekki hafa netfang í vinnunni verður gert kleift að svara henni á pappír. Þátttaka í könnuninni er kjörið tækifæri fyrir starfsmenn ríkisins til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um atriði sem varða starfsumhverfi þeirra og hafa áhrif á árangur og líðan í starfi. Hér er einnig um einstakt tækifæri að ræða fyrir stofnanir til að fá mat á eigin starfsumhverfi og stjórnun, mat sem getur lagt grunn að umbótastarfi þar sem þess er þörf.

Það eru því ríkir hagsmunir allra hlutaðeigandi að sem best svörun fáist í könnuninni og hvetja skipuleggjendur hennar alla hlutaðeigandi til að gefa sér tíma til að svara spurningalistanum.

Á vef fjármálaráðuneytisins er að finna nánari upplýsingar um könnunina.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum