Hoppa yfir valmynd
24. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Erlendir ríkisborgarar hafa fyllt þriðjung nýrra starfa

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. október 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í nýútkomnum Þjóðarbúskap - haustskýrslu 2006 er fjallað um þátt erlendra ríkisborgara í atvinnulífinu.

Þar kemur m.a. fram að hlutur erlendra ríkisborgara í fjölda starfandi hefur vaxið á undanförnum árum úr 2,3% árið 1998 í 5,5% árið 2005. Jafnframt hefur þeim fjölgað úr 3.400 fyrra árið í yfir 9.000 síðasta ár. Allan þennan tíma hefur megináhrifavaldur aðflutningsins verið eftirspurn íslenskra atvinnurekenda eftir vinnuafli og því hefur atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara á starfsaldri verið há.

Í síðustu uppsveiflu í efnahagslífinu urðu til um 11.000 ný störf og fylltu erlendir ríkisborgarar um fjórðung þeirra. Á yfirstandandi hagvaxtarskeiði hafa nú þegar orðið til um 9.000 störf og erlendir ríkisborgarar hafa tekið að sér tæplega þriðjung þeirra.

Hlutdeild erlendra ríkisborgara eftir atvinnugreinum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað í öllum atvinnugreinum. Mest hefur fjölgunin verið í mannvirkjagerð, eða yfir 40% af fjölda nýrra starfa. Hlutfall erlendra starfsmanna er litlu lægra í vexti starfa í hótel- og veitingaþjónustu. Í fiskveiðum, fiskvinnslu og öðrum iðnaði hefur starfsmönnum fækkað samtals um tæplega 6.000 á tímabilinu. Þrátt fyrir það fjölgaði erlendum starfsmönnum í þessum greinum um rúmlega 1.000. Það vekur athygli að erlendum starfsmönnum í fjármálaþjónustu fjölgaði nær ekkert og fóru þeir einungis í 1% af nýjum störfum í þeirri grein. Erlendum starfsmönnum hefur heldur ekki fjölgað mikið í fræðslustarfsemi. Í heilbrigðis- og félagsþjónustu, þar sem störfum hefur fjölgað um 5.000, var tíundi hver nýr starfsmaður erlendur. Afleiðing þessarar þróunar er að hlutur erlendra ríkisborgara er misjafnlega mikill í atvinnugreinunum eins og sjá má á myndinni. Hann er hæstur í fiskvinnslu en lægstur í fjármálaþjónustu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum