Hoppa yfir valmynd
23. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lækniskostnaður sjúkratrygginga

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. október 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna heilbrigðisþjónustu sem einstaklingar leita eftir hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum sem vinna samkvæmt samningi nam rúmlega 3.600 m.kr. á árinu 2005 og hefur aukist um 910 m.kr. frá árinu 1998 á föstu verði miðað við almennan þjónustulið neysluverðsvísitölu.

Þetta svarar til tæprar 5% meðalaukningar á ári yfir tímabilið í heild en á sama tíma hefur árleg meðalfjölgun landsmanna numið um 1,2%. Árleg meðalaukning miðað við fast verð var mun meiri fyrri hluta tímabilsins, frá 1998 til 2001, eða um 8% en um 1,8% á árunum 2002 til 2005.

Um 60% af greiðsluþátttöku sjúkratryggingar eru greiðslur til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem í stórum dráttum fá greitt fyrir einstök læknisverk sem metin eru til eininga en árið 2005 var einingarverð 214 kr. Það ár voru um 2,2 milljarðar króna greiddar fyrir læknisverk sem unnin voru á starfsstofum sjálfstætt starfandi sérgreinalækna. Á bak við þá fjárhæð eru rúmlega 13 milljón lækniseiningar og rúmlega 384 þúsund komur til læknis. Hver koma er því að meðaltali 34 einingar og kostar 7.276 kr. en þar af greiðir sjúklingur nálægt 30% eða 2.180 kr.

Lækniskostnaður sjúkratrygginga árin 1998 til 2005 á verðlagi 2006

Aðrar greiðslur sjúkratrygginga vegna lækniskostnaðar eru vegna þjónustu sjálfstætt starfandi heimilislækna og sérstakra vottorða og nema greiðslur til þeirra tæpum 10% af heild. Þá nema kaup á myndgreiningum hjá fyrirtækjum á því sviði svo og kaup á ýmis konar rannsóknarvinnu á rannsóknarstofum tæpum 30% af heild.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum