Hoppa yfir valmynd
10. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sveiflujöfnunaráhrif í alþjóðlegum samanburði

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 5. október 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Tekjuafgangur ríkissjóðs nam 5,6% af landsframleiðslu árið 2005 og er áætlað að hann verði 4,0% af landsframleiðslu í ár.

Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að afgangurinn verði 1,5% af landsframleiðslu árið 2007. Með hliðsjón af góðri kerfislægri afkomu og litlum skuldum er ljóst að efnahagur ríkissjóðs er mjög sterkur í alþjóðlegum samanburði. Þessi góða afkoma rímar jafnframt vel við æskileg sveiflujafnandi áhrif ríkissjóðs í uppsveiflu.

Vísbendingu um það má finna með því að horfa annars vegar til sveifluleiðrétts frumhalla hins opinbera og hins vegar til framleiðsluspennu hagkerfisins. Samtímafylgni þessara tveggja hagstærða er áhugaverður stiki sem gefur vísbendingu um aðhald fjármálastjórnar á hverjum tíma. Þetta hefur verið rannsakað fyrir ríkin innan OECD.

Ef horft er til síðastliðins áratugar kemur í ljós að allt að átta ríki hafa beitt marktækt sveiflujafnandi fjármálastjórn. Þrjú af þeim, Noregur, Nýja-Sjáland og Ísland, glímdu að jafnaði við framleiðsluspennu yfir þann tíma. Hin fimm ríkin, Japan, Sviss, Finnland, Bandaríkin og Lúxemborg höfðu að jafnaði framleiðsluslaka. Ísland er því hér í hópi þeirra ríkja sem hafa beitt hvað mest sveiflujafnandi fjármálastjórn gegn hagsveiflunni undanfarinn áratug. Aðeins Norðmenn höfðu aðhaldssamari fjármálastjórn í sinni uppsveiflu samkvæmt þessu.Japan hefur beitt fjármálastjórn mest gegn hagsveiflunni með mikilli skuldasöfnun en þá til að örva japanska hagkerfið upp úr framleiðsluslaka og niðursveiflu. Þetta er því skýr vísbending um að tilhneiging fjármálastjórnar hérlendis sé í þá átt að vera meira sveiflujafnandi en fjármálastjórn flestra annarra ríkja innan OECD.

Sveiflujöfnun fjármálastjórnar OECD-ríkja



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum