Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðfluttir eru ekki allir eins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í tölum Hagstofunnar um búferlaflutninga á fyrra helmingi ársins sem voru birtar á dögunum kemur fram mikill aðflutningur erlendis frá til Austurlands.

Er það að vonum þar sem þar standa nú yfir miklar framkvæmdir sem mannaðar hafa verið af erlendum starfsmönnum sem að verulegu leyti búa í vinnubúðum eystra og eru skráðir til heimilis þar meðan á dvöl þeirra stendur. Hins vegar hefur mikill fjöldi fólks einnig flust til annarra landshluta frá útlöndum á árinu. Sumt af þessu fólki tengist umfangsmiklum framkvæmdum sem eru í gangi í tengslum við orku- og stóriðjuframkvæmdir á suðvesturhorninu en annað er hingað komið til að leysa af hendi margs konar störf í samfélaginu sem framboð vinnuafls innanlands hefur ekki getað annað.

Aðflutningurinn til Austurlands sker sig mjög úr flutningunum að öðru leyti. Þannig eru yfir 90% aðfluttra frá útlöndum þangað karlar. Til annarra hluta landsins var hlutfall karla 60% en kvenna 40%. Aldursskiptingin er einnig mjög frábrugðin eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Alls eru nær 3/4 aðfluttra á Austurlandi á aldrinum milli 30 og 54 ára og tíðasti aldurinn er 45-49 ára. Í öðrum landshlutum er tíðasti aldurinn 25-29 ára og sá næsttíðasti er 20-24 ára. Þetta bendir til þess að sá hópur fólks sem flutt hefur til annarra landshluta en Austurlands sé að uppistöðu til ungt fólk af báðum kynjum sem er hingað komið í þeim tilgangi að búa hér til frambúðar ef þeim líkar vel.

Aldurskipting aðfluttra janúar - júlí 2006

Reynsla undanfarinna ára bendir til þess að svo muni verða einkum þegar í hlut á fólk sem kemur frá nýju ESB-ríkjunum og Austurlöndum fjær. Aftur á móti má reikna með því að starfsmenn við framkvæmdirnar eystra muni að stærstum hluta halda á ný mið þegar verkefnunum hér lýkur.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum