Hoppa yfir valmynd
25. september 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innleiðing á nýjum reglum ESB um opinber innkaup

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á vegum fjármálaráðuneytisins er gerð frumvarps til nýrra heildarlaga um opinber innkaup nú á lokastigum og ráðgert að frumvarpið verði lagt fram í byrjun komandi þings.

Er frumvarpið til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga (útboðstilskipunin) svo og tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti (veitutilskipunin). Þessar tilskipanir voru teknar upp í XVI. viðauka EES-samningsins 2. júní 2006 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006.

Meðal efnislegra breytinga á reglum ESB um opinber innkaup sem leiða af tilskipun nr. 2004/18/EB eru þessar helstar: Settar hafa verið nýjar reglur um heimild til svokallaðra samkeppnisviðræðna þegar um er að ræða flókna samninga og reglur eru skýrari um leyfilegar forsendur fyrir vali tilboðs og tengsl þeirra við efni samnings. Kveðið er á um heimildir til notkunar rafrænna miðla við opinber innkaup og gagnvirk innkaupakerfi og heimilt verður að nota svokölluð rafræn uppboð við opinber innkaup. Reglur um viðmiðunarfjárhæðir eru einfaldaðar og allar fjárhæðir settar fram í evrum. Þá hafa ítarlegri reglur verið settar um framkvæmd samningskaupa og rammasamninga og reglur eru afdráttarlausari hvað varðar tilkynningar og rökstuðning.

Skýrari reglur hafa verið settar um val á þátttakendum í forvali sem og hvaða kröfur heimilt er að gera til þátttakenda í opinberum innkaupum. Reglur eru ennfremur afdráttarlausari hvað varðar heimild til að hafna óeðlilega lágum tilboðum vegna ólögmætra ríkisstyrkja. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að taka frá ákveðna samninga fyrir verndaða vinnustaði sem og að heimilt er nú að gera kröfur til þess að samningur sé framkvæmdur með ákveðnum hætti, t.d. með tilliti til umhverfisverndar eða samfélagslegra sjónarmiða.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum