Hoppa yfir valmynd
20. september 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Gerð tvísköttunarsamninga

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fremur rólegt hefur verið á vettvangi tvísköttunarsamninga það sem af er þessu ári.

Í lok júní gengu samninganefndir Íslands og Rúmeníu frá tvísköttunarsamningi milli ríkjanna. Samningurinn nær eingöngu til tekjuskatta. Helstu efnisatriði samningsins eru að afdráttarskattur af arði er 5% ef hann er greiddur til félags sem á a.m.k. 25% í félaginu en í öllum öðrum tilvikum er afdráttarskatturinn 10%. Afdráttarskattur af þóknunum sem greiddar eru vegna ýmissa höfundarverka o.fl. er 5%. Lífeyrisgreiðslur má eingöngu skattleggja í því ríki þar sem þær eru upprunnar.

Í byrjun septembermánaðar átti íslenska samninganefndin fyrsta fund sinn með samninganefnd Kýpur í Nikósíu, en Kýpur er síðasta ríkið sem Ísland gengur til samninga við af 25 aðildarríkjum ESB. Samningagerðin gekk vel og er stefnt að því að ljúka gerð tvísköttunarsamningsins við Kýpur hið fyrsta.

Tvísköttunarsamningurinn við Grikkland var undirritaður hér á landi í júlí sl. og ætti sá samningur því að öllu óbreyttu að gilda frá og með næstu áramótum. Sem stendur bíða 6 nýir samningar undirritunar eða við Austurríki, Króatíu, Mexíkó, Rúmeníu, Suður-Kóreu og Úkraínu. Endurskoðaður
tvísköttunarsamningur við Þýskaland bíður jafnframt undirritunar.

Framundan er fundur með samninganefnd bandarískra stjórnvalda um endurskoðun á núgildandi tvísköttunarsamningi landanna, sem verið hefur í gildi frá ársbyrjun 1976. Vonir standa til að það náist að ljúka endurskoðun samningsins á þeim fundi, en sú vinna hefur staðið yfir í nær 6 ár.

Enn hefur ekki tekist að ljúka við gerð tvísköttunarsamnings við Slóveníu en fyrsti fundur samninganefndanna var í nóvember 2004. Sama er að segja um gerð tvísköttunarsamnings við Indland en fyrsti fundur samninganefndanna var í nóvember á síðasta ári. Auk þessa eru framundan viðræður við Búlgaríu um gerð tvísköttunarsamnings en ekki er búið að dagsetja fyrsta fund samninganefndanna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum