Hoppa yfir valmynd
18. september 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aldursskipting í atvinnugreinum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagstofa Íslands hefur unnið gögn fyrir fjármálaráðuneytið um fjölda starfandi eftir aldri, kyni og atvinnugreinum fyrir árin 1998-2005.

Þetta eru upplýsingar sem byggjast á staðgreiðsluskrám og sýna stöðuna fyrir októbermánuð á hverju ári. Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um atvinnugreinaval ungs fólks og verða þessu efni gerð nokkuð nánari skil hér.

Í fyrri grein var fjallað um það að vinna í stórmörkuðum og matvöruverslunum væri stór atvinnugrein hjá ungu fólki. En hún er ekki bara vinsæl hjá þessum hópi: það eru næstum engir aðrir sem vinna við hana!

Í október 2005 voru 46% þeirra sem störfuðu við matvöruverslanir tvítugt fólk og yngra og 60% allra starfsmanna voru 25 ára og yngri. Sömu sögu er að segja af veitingastöðum og krám: 61% starfsmanna vera 25 ára og yngri. Þessar tvær atvinnugreinar, þar sem starfa samtals nær 9.000 manns, eru starfsvettvangur mjög stórs hóps ungs fólks.

Í þessum gögnum er einnig margs konar annan fróðleik að finna. Félagsþjónusta er ein mesta vaxtargreinin á undanförnum árum. Störfum karla fjölgaði um tæplega 500 frá 2000 til 2005 en störfum kvenna um rúmlega 2.000. Þessi fjölgun dreifist nokkuð jafnt yfir alla aldursflokka.

Sömu sögu er að segja af annarri mikilli vaxtargrein sem eru peningastofnanir. Í ýmsum greinum sem hafa vaxið mikið er fjölgunin mest í eldri aldursflokkunum. Þetta á við um greinar eins og þjónustu við atvinnurekstur, störf við menntastofnanir á háskólastigi en einnig byggingarstarfsemi, en þar endurspeglast fyrst og fremst aldursskipting þeirra starfsmanna sem fluttir hafa verið inn til að starfa við stóriðjuframkvæmdirnar.

Tvær fjölmennar greinar vekja þarna athygli umfram aðrar. Í grunnskólunum þar sem alls voru taldir starfandi 7.700 manns í október í fyrra eru rúmlega 2.400 á sextugs- og sjötugsaldri, 32% allra sem við þessa atvinnugrein starfa. Hópurinn á þessu aldursskeiði hefur stækkað um tæplega 1.000 manns á fimm árum. Þetta er vísbending um að framundan sé mikil þörf fyrir nýja starfsmenn við grunnskólana enda hafa margir hinna eldri möguleika á að hefja töku lífeyris fljótlega upp úr sextugu. Hin atvinnugreinin er heilbrigðisþjónusta. Við hana störfuðu tæplega 10.500 manns í október 2005, sem er nánast óbreyttur fjöldi frá því sem verið hafði fimm árum fyrr. En á þessum tíma hafði fækkað í öllum aldursflokkum sem við hana starfa nema í hópi þeirra sem eru á sextugsaldri. Hér sýnist stefna í nokkurt óefni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum