Hoppa yfir valmynd
13. september 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruinnflutningur í ágúst

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt mati Hagstofu var vöruskiptajöfnuður neikvæður í ágúst um 11,3 milljarða króna.

Útflutningsvirði var 16,6 milljarðar króna en flutt var inn fyrir um 28,3 milljarða króna. Þetta er mikil breyting frá fyrra mánuði þegar vöruskiptahalli var óvenjulega mikill.

Ef rýnt er nánar í innflutningstölur byggðar á bráðabirgðatölum um innheimtu virðisaukaskatts sjást nokkrar hreyfingar á stórum innflutningsliðum.

Innflutningsverðmæti fjárfestingarvara dregst saman um þriðjung milli mánaða en fjárfestingarvörur hafa að jafnaði verið ríflega fjórðungur innflutnings síðustu misseri. Eldsneytisinnflutningur dregst að sama skapi talsvert saman en sá liður er mjög sveiflukenndur milli mánaða. Innflutningur á bílum dregst lítillega saman milli mánaða en á ársgrundvelli hefur bílainnflutningur dregist saman um tæpan þriðjung. Innflutningsverðmæti varanlegra neysluvara minnkar lítillega milli mánaða en nokkur aukning er í hálf-varanlegum neysluvörum (fatnaður o.fl.) Innflutningur á rekstrar- og hrávörum er hins vegar enn á fullri ferð en nokkur aukning er þar milli mánaða.

Staðvirtur vöruinnflutningur janúar2003 - ágúst 2006

Á heildina litið virðist vera að hægja á innflutningi, en ef horft er til tólf mánaða breytingar þriggja mánaða meðaltals sést staðvirt aukning upp á tæp 12% meðan um 30% vöxtur var að meðaltali á síðasta ári. Neysludrifinn innflutningur virðist vera á undanhaldi í kjölfar gengislækkunar og eru vísbendingar um að sú þróun haldi áfram þó nýleg gengisstyrking geti unnið á móti að einhverju leyti.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum