Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Barnabætur hækka umtalsvert

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Við álagningu ríkisskattstjóra á einstaklinga sem kynnt var um síðastliðin mánaðarmót kom fram að barnabætur vegna ársins 2005 hækkuðu um 19% frá fyrra ári.

Í ár verður því úthlutað samtals tæpum 6 milljörðum króna til 55.500 framteljenda.

Ástæðan fyrir þessari miklu aukningu er að nú kom til framkvæmda annar áfangi af þremur í breytingum á barnabótum sem ákveðnar voru haustið 2004. Barnabætur til allra barna undir 7 ára aldri, sem gjarna eru nefndar ótekjutengdar bætur, eru nú 46.747 kr. á ári og þær hækkuðu um 25% frá fyrra ári. Þeim til viðbótar er úthlutað svokölluðum tekjutengdum barnabótum sem skerðast í ákveðnum hlutföllum eftir tekjum foreldranna. Með fyrsta barni eru þær nú tæpar 140 þúsund krónur á ári hjá samsköttuðum foreldrum en tæp 233 þúsund hjá einstæðum foreldrum. Bætur með hverju barni umfram eitt eru rúm 166 þúsund hjá samsköttuðum en tæp 239 þúsund á ári hjá einstæðum foreldrum. Tekjumörkin þar sem kemur til skerðingar hækkuðu um 25% í ár en bæturnar sjálfar um 10%. Því hlutfalli af tekjum umfram mörkin sem dregst frá hámarksbótum var ekki breytt í ár en það er 3% fyrir fyrsta barn, 7% þegar börnin eru tvö og 9% fyrir þrjú börn eða fleiri.

Á næsta ári koma til framkvæmda frekari breytingar á barnabótunum. Þá munu ótekjutengdar bætur hækka um 20% og verða því greiddar 56 þúsund krónur á ári í bætur fyrir öll börn undir 7 ára aldri. Tekjutengdu bæturnar munu hinsvegar ekki hækka, en tekjumörkin þar sem þær byrja að skerðast munu hækka um 20%. Jafnframt verður dregið úr skerðingu bótanna vegna tekna. Skerðingin mun minnka í 2% hjá fyrsta barni, 6% þegar börnin eru tvö og 8% ef börn eru fleiri en það. Barnabætur í ár nema rúmlega 8% af tekjusköttum til ríkisins, öðrum en fjármagnstekjuskatti.

Í tengslum við samkomulag aðila vinnumarkaðarins ákvað ríkisstjórnin í júní sl. að taka upp barnabætur til barna allt að 18 ára aldri í stað 16 ára nú. Frumvarp um framkvæmd þessarar ákvörðunar verður lagt fyrir haustþingið. Áætlað er að það muni auka greiðslur barnabóta um rúmlega 500 m.kr.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum