Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikil tekjuaukning landsmanna 2005

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Framtöl einstaklinga fyrir árið 2005 bera efnahagsástandinu ljóst vitni.

Skattskyldar tekjur landsmanna námu alls 702 milljörðum króna og jukust um 101 milljarð, 16,8% frá árinu áður. Með tilliti til skattlagningar skiptast tekjurnar í laun, lífeyri, hlunnindi og slíkar tekjur annars vegar en þær bera tekjuskatt og útsvar en hins vegar eru fjármagnstekjur sem bera fjármagnstekjuskatt.

Á árinu báru landsmenn úr býtum nær 472 milljarða króna í laun, 13% meira í heild en árið áður en 8,5% meira á hvern launamann. Þeim sem höfðu einhverjar launatekjur fjölgaði um 2,2%. Launamönnum fjölgaði meira á síðasta ári en undanfarin ár ef árið 2000 er undanskilið. Greiðslur til einstaklinga úr lífeyrissjóðum námu rúmum 34 milljörðum á síðasta ári og jukust um 12,5% frá fyrra ári. Þeir sem slíkar greiðslur fengu voru 40.600 og þeim fjölgaði um 2,7%. Greiðslur Tryggingastofnunar til lífeyrisþega og öryrkja námu tæpum 32 milljörðum króna til tæplega 47 þúsund einstaklinga. Þeim fjölgaði einungis um ½% frá fyrra ári meðan heildargreiðslurnar jukust um tæp 5%.

Fjármagnstekjur 1990-2005

Í fyrra voru greiddir 2,4 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur og lækkaði sú tala um 1 milljarð frá fyrra ári. Tæplega 8.400 fengu slíkar bætur og fækkaði um 26,5% frá árinu 2004. Sömu sögu er að segja af þeim sem fengu húsaleigubætur og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Slíkir styrkir námu 970 m.kr. til 3.400 einstaklinga. Fjárhæðin lækkaði um 4,5% milli ára meðan þeim sem aðstoð fengu fækkaði um 15%.

Þær tekjur einstaklinga sem vaxið hafa mest á undanförnum árum eru fjármagnstekjur. Árið 2005 höfðu tæplega 85 þúsund fjölskyldur 120 milljarða í tekjur af eignum sínum. Aukningin milli ára var rúmlega 45 milljarðar, yfir 60%. Fjármagnstekjur hafa vaxið stöðugt, einkum eftir að sérstakur fjármagnstekjuskattur var tekinn upp 1997. Fjármagnstekjur eru orðnar 17% af öllum skattskyldum tekjum. Meira en helmingur fjármagnstekna er hagnaður af sölu hlutabréfa og fimmtungur til viðbótar er arður af hlutabréfaeign. Rúmlega 9 þúsund fjölskyldur höfðu tekjur af sölu hlutabréfa meðan 40 þúsund fengu arð af slíkum bréfum. Flestir höfðu tekjur af vöxtum af innstæðum í bönkum, yfir 60 þúsund, alls rúmlega 11 milljarða, 184 þúsund á hverja fjölskyldu.

Eins og áður sagði jukust skattskyldar tekjur hér á landi um 16,8% í fyrra. Álagðir skattar jukust um 11,1% og tekjur að frádregnum sköttum um 18,5%. Skattskyldar tekjur einstaklinga að frádregnum álögðum sköttum er stærð sem nálgast að vera jöfn ráðstöfunartekjum heimilanna í landinu. Samkvæmt þessu hafa ráðstöfunartekjur vaxið meira en einkaneyslan árið 2005 en hún óx um 14% að nafnvirði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum