Hoppa yfir valmynd
23. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun þjóðhagsspár fyrir árin 2006 og 2007

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fyrr í þessari viku kom út endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins þar sem fjallað er um framvindu efnahagslífsins til ársins 2008.

Endurskoðunin hefur leitt til nokkurra breytinga frá aprílspá ráðuneytisins fyrir árin 2006 og 2007. Helst ber að nefna að nú er reiknað með 7,8% verðbólgu á yfirstandandi ári í stað 5,9%. Þó er sú breyting skilyrt meðal annars við þá áætlun að laun á almennum vinnumarkaði hækki að meðaltali um 4% frá 1. júlí næstkomandi. Þá er búist við að viðskiptahalli verði 15,9% af landsframleiðslu í stað 14,4% árið 2006. Á næsta er ári er gert ráð fyrir 0,9% hagvexti í stað 1,8% í fyrri spá ráðuneytisins.

Þróun spár um hagvöxt og gengi 2006-2007

Fjármálaráðuneytið hefur sjö sinnum gefið út þjóðhagsspá fyrir árið 2006 frá því í október 2004. Búast má við tveimur spám til viðbótar áður en Hagstofa Íslands birtir fyrstu þjóðhagsreikninga fyrir árið 2006 á vormánuðum 2007. Fimm spár hafa verið gerðar fyrir árið 2007 frá því í apríl 2005. Þegar horft er yfir fyrri spár ráðuneytisins má greina að hagvaxtarspá fyrir árið 2006 virðist nokkuð stöðug. Hæsta gildið rís í spá sem birtist í apríl 2005 eða um 5,7% en það lægsta í upphafi spáferilsins í október 2004, eða um 4,5%. Hagvaxtarspáin fyrir árið 2007 er ekki eins stöðug þar sem hæsta gildið nær 2,6% í janúar 2006 en það lægsta 0,9% í nýútgefinni spá.

Spár um viðskiptahalla við útlönd sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sýna nokkurn breytileika enda er þessi stærð afleidd af mörgum öðrum spástærðum sem háðar eru mörgum misjöfnum forsendum. Spá um viðskiptahalla hefur legið á bilinu 11,4% til 15,9% af landsframleiðslu fyrir árið 2006. Breytileiki spárinnar um viðskiptahallann er á bilinu 6,2% til 7,8 fyrir árið 2007.

Spágerð varðandi gengi íslensku krónunnar á nafnvirði hefur ávallt verið erfitt viðfangsefni. Reynslan sýnir að mörg og ólík atriði hafa áhrif á gengið. Breytileikinn í spám ráðuneytisins er umtalsverður hvað viðvíkur árinu 2006. Upphaflega var reiknað með 128 vísitölustigum að meðaltali árið 2006, en í kjölfar styrkingar á gengi krónunnar var í janúar síðastliðnum gert ráð fyrir töluvert sterkara gengi eða um 109 vísitölustigum. Breytileikinn í spám um gengi krónunnar er minni fyrir árið 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum