Hoppa yfir valmynd
19. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Útvistunarstefna mörkuð fyrir ríkið

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Ríkisstjórnin hefur, að tillögu fjármálaráðherra, samþykkt stefnu um kaup ríkisins og stofnana þess á þjónustu og útvistun á ýmsum rekstrarþáttum sem ríkið hefur með höndum.

Í útvistunarstefnu ríkisins er þeim tilmælum beint til ráðuneyta og ríkisstofnana að þau fari með skipulegum hætti yfir hagkvæmni og árangur þeirra rekstrarverkefna sem ríkið annast með beinum hætti eða hafa þegar verið falin aðilum á markaði. Stefnan tekur m.a. mið af reglugerð nr. 343/2006 um samninga um rekstrarverkefni sem ráðuneyti og stofnanir gera til lengri tíma en eins árs og var nýverið kynnt. Ennfremur tekur hún mið af innkaupastefnu ríkisins sem ríkisstjórnin samþykkti í nóvember 2002 og er almenn stefnumörkun um opinber innkaup.

Kaup ríkisins á vörum og þjónustu eru talin nema um 90 milljörðum króna á ári. Með innkaupum sínum er ríkið þannig í sterkri stöðu til að efla samkeppni og skapa ný tækifæri á markaðnum. Frekari útvistun verkefna styður við þessa þróun.

Með útvistunarstefnunni eru ríkisaðilum sett mælanleg markmið um útvistun verkefna og um ávinning. Stefnt er að því að hlutfall innkaupa á vöru og þjónustu af útgjöldum ríkisins, án tilfærslna og vaxtagjalda, aukist um 2% á ári. Er gert ráð fyrir að ríkið í heild nái fram 400 m.kr. ávinningi á ári með því að framfylgja stefnunni, eða samtals 1.600 m.kr. á árunum 2007 – 2010. Ávinning þann sem fram næst má nýta til að bæta þjónustu.

Gert er ráð fyrir að framkvæmd stefnunnar verði með þeim hætti að hvert og eitt ráðuneyti meti á þessu ári hvernig fyrirkomulagi opinberra þjónustuverkefna sé best háttað og móti um það stefnu, sem þau miðli til stofnana sinna. Þá gerir stefnan og ráð fyrir að þjónustu- og rekstrarverkefni skuli yfirfarin með skipulegum hætti og þau metin með tilliti til þess hversu vel þau séu fallin til útvistunar. Leiði þetta mat til þess að tiltekin verkefni séu vel til útvistunar fallin er gert ráð fyrir að það skuli gert fyrir árslok 2008, en mælst er til þess að önnur verkefni séu tekin til endurskoðunar með reglulegu millibili, enda geta forsendur fyrir útvistun verkefna breyst.

Stefnan tilgreinir sérstakar áherslur í tengslum við framkvæmd hennar. Þannig er gert ráð fyrir að settur verði á fót ráðgjafarhópur um útvistun, sem fylgi stefnunni eftir, afli og miðli þekkingu um útvistun og stuðli að samstarfi ríkisins og einkafyrirtækja um þróun verkefna. Þá er lögð áhersla á að útboðum verði beitt í auknum mæli þegar ákvarðanir eru teknar um útvistun þjónustu og koma þar til álita einstök útboð, eða sameiginleg útboð nokkurra stofnana um tiltekna þætti eða rammasamningsútboð fyrir allar stofnanir.

Í stefnunni er lögð áhersla á aukna fræðslu og fastmótað ferli við gerð og eftirfylgni þjónustusamninga. Gert er ráð fyrir að sjónum verði bæði beint að verkefnum þar sem þegar ríkir samkeppni en ekki síður að því að útvistun stuðli að nýsköpun á markaði og auki fjölbreytni. Sé rétt að málum staðið getur það skapað möguleika á nýjum lausnum og leitt til aukinnar samkeppni að fela einkamarkaði að annast tiltekin verkefni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum