Hoppa yfir valmynd
16. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný könnun um stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækja

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nú liggja fyrir niðurstöður úr nýrri könnun IMG Gallup um stöðu og horfur stærstu fyrirtækja á Íslandi, þar sem stuðst er við heildarlaunagreiðslur þegar stærstu fyrirtækin eru valin.

Þessi könnun er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 8. maí til 31. maí 2006 og er hér um styttri útgáfu af könnun að ræða. Alls voru 389 fyrirtæki í endanlegu úrtaki. Svarhlutfall var 65,3%. Forráðamenn fyrirtækja telja aðstæður í efnahagslífinu almennt góðar eða um 57% aðspurðra en um 13% telja aðstæður slæmar.

Vísitala efnahagslífsins

Forráðamenn sjávarútvegsfyrirtækja eru almennt bjartsýnni á stöðu efnahagsmála í dag en í síðustu könnunum og hefur gengisþróun síðustu mánuði líklega áhrif á þá niðurstöðu. Vísitala efnahagslífsins mælist nú 161,8 stig og lækkar frá síðustu könnun, sem gerð var í febrúar 2006, en þá mældist hún 174,5 stig.

Aukinnar svartsýni gætir hjá forráðamönnum fyrirtækja um stöðu efnahagsmála þegar þeir horfa sex mánuði fram í tímann en um 18% aðspurðra telja að aðstæður verði betri eftir 6 mánuði og 33% að aðstæður verði verri. Vísitala efnahagslífsins fyrir sex mánuði mælist nú 69,9 stig en mældist í síðustu könnun 85,7 stig. Að þessu sinni var ekki spurt um horfur tólf mánuði fram í tímann.

Í könnuninni var jafnframt spurt um áhrif gengisþróunar frá áramótum á afkomu fyrirtækisins. Um 32% aðspurðra telja að gengisþróunin síðustu mánuði muni hafa jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins en 50% telja að áhrifin verði neikvæð. Það eru einkum fyrirtæki í verslun og byggingarstarfsemi sem telja að gengisþróunin muni hafa neikvæð áhrif á afkomuhorfur en næstum allir aðspurðra í sjávarútvegi töldu að áhrifin yrðu jákvæð.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum