Hoppa yfir valmynd
9. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um líkur á harðri lendingu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á undanförnum mánuðum hefur verið lífleg umræða um líkur á harðri lendingu í íslensku efnahagslífi. Nýverið breytti Standard & Poor’s horfum fyrir skuldbindingar ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar, en hélt óbreyttum góðum lánshæfiseinkunnum ríkissjóðs. Þessi niðurstaða er rökstudd með því að meiri verðbólga í kjölfar gengislækkunar auki líkur á að Seðlabanki Íslands þurfi að hækka stýrivexti meira en ella til að halda verðbólgu í skefjum en það geti framkallað harða lendingu.

En hvað er hörð lending? Hörð lending er djúp niðursveifla í efnahagslífinu sem einkennist af ört vaxandi atvinnuleysi og vanskilum heimila og fyrirtækja. Við það dregur úr útlánagetu fjármálastofnana og fjármálakerfið verður jafnvel óstarfhæft. Reynslan sýnir að ríkissjóðir landa sem lent hafa í slíku hafa tekið á sig skuldbindingar lánastofnana að því marki sem þarf til að fjármálakerfið geti áfram sinnt hlutverki sínu.

Í nýlegri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins eru taldar litlar líkur á harðri lendingu efnahagslífsins. Ástæðurnar eru margþættar. Þótt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum sé umtalsvert um þessar mundir ber að líta til þess að um tímabundið ástand er að ræða.

Þegar núverandi stóriðjuframkvæmdum lýkur á næsta ári mun innflutningur dragast hratt saman og útflutningur aukast að sama skapi vegna þreföldunar í framleiðslugetu á áli. Með lækkun á gengi krónunnar er einnig gert ráð fyrir að hratt dragi úr innflutningi heimilanna á neysluvöru og bílum. Nýjustu bráðabirgðatölur um innflutning staðfesta það (sjá pistil um innflutning í maí í vefritinu). Vegna stóriðjuframkvæmda helst viðskiptahallinn áfram mikill í ár, en er spáð að dragast saman um helming árið 2007.

Varðandi verðbólgu, þá hefur hún verið knúin áfram af hækkun fasteignaverðs. Fasteignaverðbólgan, sem náði hámarki í ágúst í fyrra, hefur verið að ganga hratt niður og spáð er að sú þróun haldi áfram. Verðbólga mun samt aukast í ár vegna gengislækkunar og hækkandi innflutningsverðs. Gert er ráð fyrir að verðbólgan minnki aftur á vormánuðum ársins 2007 og fari niður fyrir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins. Hagvexti er spáð nær 5% í ár og tæpum 2% á næsta ári. Í þeirri spá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítið eitt.

Í skýrslu ráðuneytisins er lögð áhersla á það að íslenskt efnahagslíf er mjög sveigjanlegt, m.a. vegna víðtækra skipulagsbreytinga undanfarin fimmtán ár. Sagan sýnir að íslensk heimili og fyrirtæki bregðast skynsamlega við sveiflum í gengi krónunnar. Þegar gengið féll árin 2000 og 2001 dró hratt úr innflutningi og mikill viðskiptahalli snerist í afgang árið 2002. Sá munur er á stöðunni nú að gengið hefur fallið mun minna en það gerði þá.

Einnig er lögð áhersla á að undirstöður íslenska hagkerfisins eru sterkar en eignir heimilanna eru þrefaldar á við skuldir þeirra og staða ríkissjóðs með eindæmum góð. Stór hluti tekna íslenskra fyrirtækja, þar á meðal bankanna, er í erlendri mynt sem dregur úr gengisáhættu þeirra. Eiginfjárstaða bankanna er einnig góð og þrátt fyrir óróa á fjármálamörkuðum hafa þeir getað endurfjármagnað skammtímaskuldbindingar sínar án teljandi vandkvæða. Rannsóknir hafa sýnt að bankarnir þola umtalsverðar breytingar á gengi og vanskilum. Það skiptir líka máli að alþjóðlegt efnahagslíf er í blóma um þessar mundir og fjármálamarkaðir hafa upp á nægt lánsfé að bjóða.

Að lokum má nefna að talsverðar líkur eru á frekari stóriðjuframkvæmdum á komandi misserum. Vissulega eru einhverjar líkur á að íslenska hagkerfið verði fyrir harðri lendingu, rétt eins og það alþjóðlega. Hins vegar er það mat fjármálaráðuneytisins að þær líkur séu harla litlar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum