Hoppa yfir valmynd
6. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluafkoma ríkissjóðs

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs á fyrsta ársþriðjungi 2006 liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu eykst handbært fé frá rekstri um 24,1 ma.kr. innan ársins, sem er 13 ma.kr. hagstæðari útkoma en á sama tíma í fyrra. Þá er útkoman 22,3 ma.kr. hagstæðari en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga. Tekjur voru um 10,3 ma.kr. hærri en í fyrra en gjöldin lækkuðu um 2,7 ma.kr. Hreinn lánsfjárjöfnuður er jákvæður um 21,9 ma.kr. sem er 2,5 ma.kr. betra en á sama tíma í fyrra.

Heildartekjur ríkissjóðs námu 124,6 ma.kr. á fyrsta þriðjungi þessa árs sem er 10,3 ma.kr meiri innheimta en á sama tíma í fyrra, eða 9% aukning. Ef hins vegar tekið er tillit til tilfærslu milli mánaða vegna tekjuskatts lögaðila nemur hækkunin 6,2%. Skatttekjur og tryggingagjöld námu 114 ma.kr. sem er tæplega 12% hækkun frá síðasta ári. Á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað um 4,6% þannig að skatttekjur og tryggingagjöld hækkuðu að raungildi um tæp 7%.

Skattar á tekjur og hagnað námu 47,7 ma.kr. og hækkuðu um 12,1 ma.kr. frá síðasta ári, eða 34%. Munar þar mest um aukna innheimtu fjármagnstekjuskatts en á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs nam hún 13,9 ma.kr. sem er 44% aukning frá fyrra ári. Jafnframt skýrist 5 ma.kr. hækkun tekjuskatts lögaðila að mestu af áðurnefndri tilfærslu milli mánaða. Innheimt tryggingagjöld jukust einnig frá fyrra ári, eða um 14,3% en launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 8,5% á sama tímabili. Innheimta eignarskatta nam 3,6 ma.kr. sem er lækkun um 29% frá sama tímabili í fyrra. Þar af námu stimpilgjöld 2,8 ma.kr. en innheimta þeirra hefur dregist saman frá fyrra ári um 15,3%.

Innheimta almennra veltuskatta nam 53 ma.kr. og jókst um 6,5% frá fyrra ári, eða 1,8% umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Tekjur af virðisaukaskatti jukust um 4,2% sem jafngildir 0,4% raunlækkun. Þetta skýrist af lagabreytingu sem felur í sér rýmri greiðslufrest á virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum.

Af öðrum óbeinum sköttum má nefna að vörugjöld af ökutækjum skiluðu 42% meiri tekjum en á sama tíma í fyrra sem er umtalsverð aukning. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs fjölgaði nýskráðum bifreiðum um 16,8% og hefur dregið úr vextinum síðustu mánuði.

Greidd gjöld nema 100,5 ma.kr. og lækka um 2,7 ma.kr. frá fyrra ári, eða um 2,7%. Lækkunin skýrist alfarið af 7,6 ma.kr. lækkun vaxtagreiðslna þar sem stór flokkur spariskírteina var á innlausn í apríl í fyrra. Að vöxtum undanskildum hækka gjöldin um 4,8 ma.kr. eða 5,3%. Mest munar um heilbrigðismál sem hækka um 1,8 ma.kr. og 1,5 ma.kr. í almannatrygginga- og velferðarmálum. Þá hækka greiðslur til menntamála um 1,1 ma.kr. Samtals vega þessir þrír málaflokkar tæplega tvo þriðju af heildargjöldum ríkissjóðs. Greiðslur til löggæslu hækka um 0,4 ma.kr. og greiðslur til menningarmála um sömu fjárhæð. Á móti vegur 0,8 ma.kr. lækkun til efnahags- og atvinnumála. Skýrist það einkum af lægri greiðslum til samgöngumála.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum