Hoppa yfir valmynd
24. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun útgjalda ríkissjóðs eftir málaflokkum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðuneytið hefur tekið saman yfirlit um gjöld áranna 1988, 1997 og 2004, þar sem ríkisútgjöldum er skipt á 8 málaflokka.

Vegna breytinga á reikningsskilum ríkissjóðs á tímabilinu reyndist nauðsynlegt að gera breytingar á framsetningu upplýsinga í ríkisreikningi til þess að útgjöld málaflokkanna verði sem sambærilegust á þessum þremur tímapunktum. Þannig er vaxta- og barnabótum bætt við útgjöldárin 1988 og 1997. Þá eru gjöld vegna afskrifta skattkrafna og lífeyrisskuldbindinga undanskilin til að tölurnar verði sem samanburðarhæfastar. Loks má nefna að útgjöldum vegna grunnskóla er sleppt úr ríkisreikningi 1988, en málaflokkurinn fluttist til sveitarfélaganna um haustið 1996.

Á undanförnum árum hefur aukið hlutfall ríkissútgjalda verið varið til heilbrigðis,- velferðar- og menntamála. Þessir þrír meginútgjaldaflokkar hækka hver um sig um 3,0% til 4,4% sem hlutfall af heildargjöldum á sl. 15 árum. Árið 1988 fóru 54,1% af ríkisútgjöldunum í þessa málaflokka, en árið 2004 er þetta hlutfall komið upp í 65,6%, eða úr rúmum helmingi í tæpa tvo þriðju hluta af heildargjöldunum. Þannig hefur aukin áhersla á heilbrigðis-, velferðar-, og menntamál skilað sér í hlutfallslega hærri útgjöldum. Hér undir falla t.d. útgjöld Fæðingarorlofssjóðs sem er hrein viðbót við það sem áður var.

Hlutdeild málaflokka í útgjöldum ríkissjóðs

Sá málaflokkur sem hlutfallslega lækkar mest á tímabilinu eru útgjöld til landbúnaðar- og sjávarútvegsmála sem meira en helmingast í vægi, úr 11,6% niður í 5,2%. Á fyrri hluta tímabilsins hætti ríkissjóður að greiða bætur vegna útflutnings landbúnaðarafurða, auk þess sem endurgreiðsla söluskatts til sjávarútvegsfyrirtækja var lögð af sem gjaldaliður með upptöku virðisaukaskatts. Vega þessar breytingar þyngst til skýringar á lækkuninni. Næstmesta lækkunin er á vaxtagjöldum ríkisins, eða úr 9,5% niður í 5,1% og endurspeglar sú þróun jákvæða afkomu ríkissjóðs á seinni hluta tímabilsins. Hlutfallsleg útgjöld annarra málaflokka breytast óverulega á tímabilinu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum