Hoppa yfir valmynd
22. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Árangursstjórnun í 10 ár

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fyrir 10 árum síðan samþykkti ríkisstjórnin heildstæða stefnu um nýskipan í ríkisrekstri.

Markmiðin voru tvö: Annars vegar að skipulagi og starfsemi ríkisins væri þannig háttað að það gæti sinnt skyldum sínum við landsmenn á eins hagkvæman, skjótvirkan og árangursríkan hátt og kostur væri. Hins vegar að opinber þjónusta væri nógu skilvirk til að gefa íslenskum fyrirtækjum forskot í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni.

Í framhaldinu var ákveðið að taka upp árangursstjórnun í ríkisrekstri sem leið að þessum markmiðum. Með því skyldi leitast við að auðvelda skipulagningu verkefna til lengri tíma, efla innra starf og samstarf meðal ráðuneyta og ríkisstofnana, skilgreina gagnkvæmar skyldur þessara aðila og auka svigrúm og sjálfstæði stofnana til að mæta breyttum aðstæðum.

Miklar framfarir hafa orðið í rekstri ríkisins á þessum tíma. Almennt er mun betur og faglegar staðið að stjórn ríkisstofnana en fyrir áratug. Sem dæmi má nefna að hjá velflestum stofnunum er unnið í samræmi við skýra stefnu og gerðar vandaðar rekstraráætlanir, fylgst er grannt með framvindu með tilliti til markmiða, afköst hafa aukist og þjónusta við notendur batnað.

Fjármálaráðuneytið hefur haft frumkvæði að ýmiss konar úrbótum á sviði ríkisrekstrar, með breytingum á lögum og reglugerðum sem varða ríkisreksturinn og með almennum leiðbeiningum og hvatningu. Ráðuneytið hefur mælst til þess að árangursstjórnunarsamningar væru notaðir til að samræma betur stefnu og áherslur ráðuneyta og stofnana en gert er í lögum og reglugerðum.

Fjármálaráðuneytið hefur staðið fyrir vali á ríkisstofnun til fyrirmyndar annað hvert ár frá því að skipuleg innleiðing árangursstjórnunar hófst. Samanburður á stofnunum sem teknar hafa verið til skoðunar af þessu tilefni sýnir augljósar framfarir þeirra milli ára. Þrátt fyrir vísbendingar um góðan árangur er ljóst að innleiðing árangursstjórnunar og annarra breytinga í ríkisrekstri er langhlaup sem reynir á úthaldið. Alltaf er hægt að gera betur því að væntingar fólks um opinbera þjónustu, aðstæður og tækni taka sífelldum breytingum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum