Hoppa yfir valmynd
8. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný reglugerð um þjónustusamninga

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðuneytið hefur gefið út nýja reglugerð, nr. 343/2006, um samninga um rekstrarverkefni sem ráðuneyti og ríkisstofnanir gera til lengri tíma en eins árs, í stað reglugerðar nr. 262/1999 um sama efni.

Þeir samningar sem hér um ræðir ganga almennt undir heitinu þjónustusamningar. Þeir eru gerðir samkvæmt heimild í 30. gr fjárreiðulaga nr. 88/1997 og skuldbinda ríkið lengra fram í tímann en sem nemur fjárlögum ársins. Undir þjónustusamninga falla margir af stærstu og mikilvægustu samningum sem ríkið gerir við einkaaðila eins og um rekstur hjúkrunarheimila, menntastofnana, ýmiss konar þjónustu við fatlaða, sjúkraflutninga og rekstur samgöngutækja.

Í reglugerðinni er að finna ýmsar breytingar til að bæta málsmeðferð og skýra verkferla, eftirfylgni, ábyrgðarsvið og hlutverk þeirra sem koma við sögu innan ríkisgeirans. Gerðar eru ríkari kröfur en áður um faglegan undirbúning þeirra verkefna sem eru grundvöllur samninganna, sérstaklega að því er lýtur að fjárhagslegum þáttum þeirra.

Innkaupaþáttur verkefna er styrktur verulega með hinni nýju reglugerð. Sérstaklega er áréttað að innkaup á grundvelli reglugerðarinnar falli undir lög og reglur um opinber innkaup og sæti því almennu útboði séu þau yfir tilskilinni lágmarksfjárhæð, nema sérstakar undanþágur sé að finna í lögunum. Haga skal innkaupum á þann hátt að þau styrki og viðhaldi samkeppni og byggi upp markaði þar sem þeir eru ekki til staðar. Þá er gert ráð fyrir að Ríkiskaup beiti sér fyrir samræmdum innkaupum og samningsgerð vegna verkefna auk þess að veita almenna ráðgjöf og leiðbeiningar.

Í reglugerðinni er mælt fyrir um að við samningslok skuli verkkaupi gera úttekt á framkvæmd samningsins þar sem metið er hvernig til hafi tekist. Slík úttekt skal lögð til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um framhald verkefnis eða endurnýjun á þjónustusamningi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum