Hoppa yfir valmynd
4. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárfesting ríkissjóðs

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um framkvæmdir á vegum ríkisins í tengslum við þenslu í efnahagslífinu.

Í því sambandi er rétt að benda á að ríkissjóður hefur tímabundið dregið verulega úr fjárfestingu sinni á meðan á stóriðjuframkvæmdum stendur. Frá 2000 til 2003 nam fjárfesting ríkissjóðs að jafnaði um 11% af heildarfjárfestingu í landinu, en um 6,2% í fyrra og áætlað er að hún verði um 4,4% af heildarfjárfestingu á þessu ári.

Þess ber að geta að heildarfjárfesting hefur aukist mjög mikið á tímabilinu vegna fjárfestingar í virkjunum og álverum auk þess sem fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur aukist. Ef litið er á fjárfestingu ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) þá lækkar hún úr að meðaltali 2,2% árin 2000-2003, í 1,8% árið 2005 og er áætluð 1,2% af VLF í ár.

Fjárfesting ríkissjóðs sem hlutfall af VLF 2000-2006Fjárfesting ríkissjóðs minnkar um 6 milljarða króna frá árinu 2003, þegar hún var í hámarki, til ársins í ár, eða rúm 30% að nafnvirði. Ef litið er á áætlun fjárlaga fyrir árið 2006 eru fjárfesting og fjármagnstilfærslur ríkissjóðs áætlaðar 13,6 ma.kr., þar af fara tæpir 6 ma.kr. til vegamála, 1,6 ma.kr til heilbrigðisstofnana, tæpir 1,6 ma.kr. í menntastofnanir og rúmlega 800 m.kr. í hafnir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum