Hoppa yfir valmynd
3. maí 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun einkaneyslu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er fjallað um framvindu hagkerfisins á komandi árum.

Nokkra breytingu er að merkja frá janúarspá ráðuneytisins sem rekja má annars vegar til þess að hagtölur fyrri ára hafa tekið umtalsverðum breytingum og hins vegar hefur ókyrrð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum borist hingað til lands. Við það hefur gengi krónu og hlutabréfa lækkað þótt lækkunin hafi nú gengið að hluta til baka. Af þessum sökum hefur vöxtur einkaneyslu á þessu ári og því næsta verið endurskoðaður til lækkunar. Spurt hefur verið hvort vöxtur einkaneyslu verði ekki minni en nú er spáð. Í því samhengi er vitnað í reynsluna af síðustu hagsveiflu þegar einkaneysla dróst saman árin 2001 og 2002.

Þróun einkaneyslu og tengdra þátta 1998-2007Eins og meðfylgjandi mynd sýnir er margt ólíkt með núverandi og síðustu hagsveiflu. Gert er ráð fyrir að veiking gengis krónunnar í ár verði helmingi minni en árið 2001 en gengið hefur mikil áhrif á kaupmátt landsmanna erlendis. Fasteignaverð hefur hækkað meira en í fyrri uppsveiflu. Í því samhengi er rétt að benda á að hrein eign landsmanna, sem samanstendur m.a. af húsnæðisauði og lífeyrissparnaði, hefur aukist um 60% árin 2003-2005 en til samanburðar var aukningin árin 1998-2000 um 34%.

Auðsáhrif á einkaneyslu hafa því verið meiri í þessari uppsveiflu en hinni fyrri. Árin 2006–2007 er gert ráð fyrir áframhaldandi en hægari vexti fasteignaverðs og hreinnar eignar landsmanna. Lausafjárstaða heimilanna hefur batnað við það að raunvaxtakostnaður þeirra árin 2004-2005 var að meðaltali 25% lægri en árin 2000 og 2001. Reiknað er með að hann haldist lægri í ár og á næsta ári en fyrir fimm árum.

Þá er spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist mun meira þessi ár en í niðursveiflunni þegar hann var óbreyttur. Skattalækkanir munu auka kaupmátt ráðstöfunartekna á mann allt að 2,7% á næsta ári, en slíku var ekki til að dreifa í síðustu niðursveiflu.

Að lokum er rétt að benda á þann mun að yfirstandandi stóriðjuframkvæmdir eru enn í fullum gangi í ár og lýkur á því næsta. Í fyrri uppsveiflu lauk stóriðjuframkvæmdum árið 1998 en þær voru jafnframt mun minni en núverandi framkvæmdir. Að öllu þessu athuguðu er niðurstaðan sú sem hefur verið birt.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum