Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innflutningur í mars

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Vöruinnflutningur í mars reyndist vera í kringum 33,2 milljarðar króna sam kvæmt bráðabirgðaniðurstöðum um innheimtu virðisaukaskatts.

Þetta er töluverð aukning milli mánaða en í febrúar var innflutningur um 22 milljarðar króna. Ef tölurnar reynast réttar er staðvirt aukning milli ára 36,3%. Ef horft er til tólf mánaða breytingar þriggja mánaða staðvirts meðaltals er aukningin á svipuðu róli, eða 36,4%.

Vöruinnflutningur að raunvirði janúar 2003 til mars 2006

Þótt um verulega magnaukningu sé að ræða átti lækkun á tollgengi krónunnar sinn þátt í auknu innflutningsverðmæti milli mánaða en gengið veiktist um tæp 5% vegna innflutnings í mars. Það þýðir að innflutningur verður dýrari en jafnframt hækka útflutningstekjur. Gera má ráð fyrir að það taki nokkra mánuði fyrir gengislækkunina að hafa áhrif á magnstærðir innflutnings en jafnan eru neysluvörur og bifreiðar sérlega næmar fyrir gengissveiflum og má því vænta minni aukningar innflutnings í þeim liðum á næstu mánuðum.

Annar mikilvægur þáttur var aukning í innflutningi á eldsneyti en sá liður er afar sveiflukenndur. Verðmæti eldsneytisinnflutnings var mjög mikið í mars og koma þar saman gengislækkun og hækkandi eldsneytisverð á heims mörkuðum. Innflutningur var einnig mikill á fjárfestingar- og rekstrar vörum eins og raunin hefur verið síðustu misseri en það stafar að mestu af fjárfestingum í stóriðju. Ekki er reiknað með að gengislækkunin hafi mikil magnáhrif á innflutning fjárfestingar- og rekstrarvara vegna stóriðjuframkvæmda.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum