Hoppa yfir valmynd
13. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Þegar fjallað er um þær reglur sem gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts til opinberra aðila, er nauðsynlegt að hafa jafnframt í huga reglur um virðisaukaskatt af eigin þjónustu innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana enda eru þessar reglur samtvinnaðar.

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kemur fram að þeir aðilar sem stunda starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti eru virðisaukaskattsskyldir af framleiðslu vara til eigin nota og af þjónustu sem þeir inna af hendi til eigin nota í samkeppni við þá aðila sem eru virðisaukaskattsskyldir. Á grundvelli þessa ákvæðis hafa verið settar tvær reglugerðir, þ.e. reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, og reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Þessar reglugerðir eru af sömu rót runnar og miða að því að virðisaukaskattur hafi ekki áhrif á val þeirra, er stunda starfsemi er fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, um það hvort þeir kaupa að þjónustu eða inna hana sjálfir af hendi. Ákvæðum laganna og reglugerðanna er þannig ætlað að tryggja að reglur um virðisaukaskatt leiði ekki til röskunar á samkeppni á markaði.

Þegar virðisaukaskattur var tekinn upp var upphaflega gert ráð fyrir að sömu reglur giltu um vsk-skyldu fyrirtækja í óskattskyldri starfsemi og opinbera aðila, þ.e. að þessir aðilar yrðu virðisaukaskattskyldir af framleiðslu vara og þjónustu til eigin nota sem væri í samkeppni við skattskylda aðila. Sveitarfélögin brugðust hins vegar öndverð gegn þessari lagasetningu og töldu einsýnt að hún myndi hafa umtalsverðan kostnaðarauka í för með sér fyrir þau. Niðurstaðan varð því sú að í stað þess að leggja þær skyldur á stofnanir ríkis og sveitarfélaga að innheimta vsk af eigin þjónustu var farin svokölluð endurgreiðsluleið varðandi kaup á tiltekinni þjónustu. Í henni felst að kaupi opinber aðili þessa þjónustu af virðisaukaskattskyldum aðila, t.d. hugbúnað af tölvufyrirtæki, fæst virðisaukaskatturinn sem lagður er á kaupin endurgreiddur. Þannig verður virðisaukaskatturinn ekki sérstakur þáttur í ákvörðun opinbera aðilans um hvort hann kaupir þjónustuna að eða sinnir henni sjálfur.

Á árinu 2004 nam endurgreiddur virðisaukaskattur til opinberra aðila liðlega 3,1 milljarði króna. Þar af voru rúmlega 1,5 milljarðar endurgreiddir til stofnana í eigu sveitarfélaga. Endurgreiðslur þessar hafa aukist gríðarlega á síðustu árum og má til samanburðar geta þess að endurgreiðslur til opinberra aðila námu um 900 milljónum króna á árinu 1993.

Í reglugerð nr. 562/1989 um fyrirtæki o.fl. sem hafi með höndum óskattskylda starfsemi er fjallað um hvaða starfsemi sé skattskyld að svo miklu leyti sem starfsemin er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, s.s. eins og þjónusta sérfræðinga, sbr. eftirfarandi:

  • 5. Þjónusta verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.

Samhljóða tölul. 5 er að finna í reglugerð nr. 248/1990, sem fjallar annars vegar um skattskyldu opinberra aðila og hins vegar um endurgreiðslu vsk til opinberra aðila vegna kaupa á ákveðinni vinnu og þjónustu. Samkvæmt þeim ber annars vegar óskattskyldum fyrirtækjum og stofnunum að reikna vsk af sérfræðiþjónustu sem innt er af hendi innan fyrirtækjanna í eigin þágu en opinberir aðilar fá hins vegar endurgreiddan vsk sem þeir greiða vegna þjónustu þessara sérfræðinga. Sem fyrr segir miða framangreind ákvæði að því að virðisaukaskattur hafi ekki áhrif á val þeirra, er stunda starfsemi er fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, um það hvort þeir kaupa þjónustu eða inna hana sjálfir af hendi, þó svo að tvær mismunandi leiðir séu farnar.

Embætti ríkisskattstjóra hefur m.a. túlkað ákvæðin um sérfræðiþjónustu þannig að skráning og önnur innfærsla upplýsinga í tölvukerfi, vinnsla sem fer fram í kerfunum sem liður í reglubundinni starfsemi fyrirtækis eða stofnunar, svo og notendaaðstoð af þeim toga sem almennt er og venjulegt að fari fram í fyrirtækjum og stofnunum sem liður í starfsemi þeirra, teljist ekki til skattskyldrar eða endurgreiðslukræfrar þjónustu. Sama eigi við um daglegan rekstur stoðkerfa og uppsetningu vélbúnaðar sem og færslu eigin bókhalds. Hýsing kerfanna hefur einnig verið talin hluti af daglegum rekstri.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum