Hoppa yfir valmynd
10. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innflutningur í febrúar 2006

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum byggðum á innheimtu virðisaukaskatts nam vöruinnflutningur 22 milljörðum króna í febrúarmánuði, sem er um 3,5 milljörðum minna en innflutningur síðasta mánaðar.

Ef bráðabirgðatölurnar reynast réttar hefur staðvirtur vöruinnflutningur aukist um 23% síðustu tólf mánuði en um 32% ef horft er til 12 mánaða breytingar ársfjórðungsmeðaltals.

Meginskýringin á minni innflutningi frá fyrri mánuði er minni innflutningur á eldsneyti en slíkur innflutningur sveiflast jafnan mikið milli mánaða. Minna var jafnframt flutt inn af fjárfestingarvörum sem og hrá- og rekstrarvörum.

Nokkur aukning var á innflutningi neysluvarnings í febrúar en það endurspeglar hefðbundna uppsveiflu í lok janúarútsölu verslana. Athygli vekur að bílainnflutningur tekur kipp upp á við á ný. Mánaðarlegur innflutningur fólksbíla hefur verið mikill en stöðugur síðustu mánuði en eykst nokkuð í febrúarmánuði. Í ljósi gengislækkana síðustu vikna má þó gera ráð fyrir að eitthvað fari að slá á mikinn bílainnflutning á næstunni.

Vöruinnflutningur að raunvirði í febrúar 2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum