Hoppa yfir valmynd
7. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ellilífeyrir hæstur á Íslandi af Norðurlöndunum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fyrir nokkru birtist hér í vefritinu grein sem sýndi að heildarráðstöfunartekjur aldraðra eru hæstar á Íslandi af Norðurlöndunum samkvæmt nýjustu samanburðartölum sem fyrir liggja. Sérstaklega var tekið fram í þeirri grein að atvinnuþátttaka aldraðra á Íslandi er mun meiri en á hinum Norðurlöndunum. Að þessu sinni verður ellilífeyririnn sjálfur tekinn til athugunar.

Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar úr nýjustu útgáfu NOSOSKO (Nordisk Socialstatistisk Komité, 2005) fyrir árið 2003 (Social tryghed i de nordiske lande 2003). Í samanburðinum er ellilífeyrir aldraðra á Norðurlöndunum í kaupmáttarleiðréttum evrum þ.e. tekið er tillit til verðlags í hverju landi. Tölurnar eru miðaðar við mánaðargreiðslur.

Mynd 1 sýnir þær tekjur eða ellilífeyri aldraðra sem almannatryggingar í hverju landi tryggja að aldraðir hafi að lágmarki sér til framfærslu. Eins og sést á myndinni er lágmarks ellilífeyrir hæstur á Íslandi fyrir sambúðarfólk en í meðallagi fyrir einhleypa.

Mynd 1, tekjur eftir skatta hjá ellilífeyrisþegum sem aldrei hafa haft atvinnutekjur

Mynd 1 segir þó ekki alla söguna því að á Íslandi eru mjög fáir aldraðir einungis með lífeyri frá Tryggingastofnun sér til framfærslu. Flestir aldraðir á Íslandi eru því samtals með hærri tekjur en sem nemur lágmarksframfærslu Tryggingastofnunar. Ef bera á saman ellilífeyri er rétt að líta einnig á raunverulega greiddan ellilífeyri á mann.

Eins og sést á mynd 2 er ellilífeyrir fyrir skatta hæstur á Íslandi af Norðurlöndunum eða nokkru hærri en í Noregi sem kemur næst. Hér eru teknar saman allar lífeyrisgreiðslur á mann bæði frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum. Það ber þó að taka fram að tölur NOSOSKO byggjast á meðaltölum og getur ellilífeyrir innan hópsins verið mjög misjafn.

Mynd 2, ellilífeyrisgreiðslur á mann fyrir skatta



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum