Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hægfara bylting?

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Þegar Hagstofa Íslands birti heildartölur um búferlaflutninga ársins 2005 kom í ljós að spár ráðuneytisins um búferlaflutninga íslenskra ríkisborgara frá því í nóvember höfðu staðist nákvæmlega en brottfluttir erlendir ríkisborgarar urðu örlítið fleiri en þá var reiknað með.

Hins vegar nam heildarfjöldi aðfluttra erlendra ríkisborgara 4.680 og þar af voru 2.300 skráðir síðustu 3 mánuði ársins, hvort sem aðflutningur þeirra hefur átt sér stað þá eða áður.

Niðurstaðan var sú að íbúafjölgun landsins vegna búferlaflutninga árið 2005 nam 3.860, næstum því tvöfalt meiri en reiknað var með í október. Að sjálfsögðu hefur athyglin beinst að stórframkvæmdunum eystra þegar útlendingar eru annars vegar.

Árið 2005 nam nettóflutningur til Austurlands 1.461 sem er meira en helmingi meira en árið á undan. Flutningar frá útlöndum færðu hins vegar öllum landshlutum íbúafjölgun í fyrra; aðfluttir umfram brottflutta voru rétt tæp 1.500 á höfuðborgarsvæðinu og rúmlega 900 á landsbyggðinni utan Austurlands. Hlutfallslega bættu millilandaflutningar mestu við íbúafjölda á Vesturlandi, ef Austurland er skilið undan.

Búferlaflutningar nýliðins árs bættu miklu við fjöldann í einstökum árgöngum. Það er vísbending um að hér er á ferðinni viðvarandi breyting á íslensku samfélagi að í fyrra var fjölgun hjá konum upp undir 2% í einstökum aldursflokkum og yfir 1% í öllum hópnum milli 15 ára og fertugs. Aðflutning kvenna á síðastliðnu ári má nefnilega ekki nema að örlitlu leyti rekja til stóriðjuframkvæmdanna beint og það gildir að sjálfsögðu einnig að miklu leyti um karlmenn sem flutt hafa til annarra landshluta en Austurlands. Viðbótin hjá körlunum í fyrra var meiri en hjá konunum. Hún var upp undir 4% í einstökum aldursflokkum og yfir 2% í öllum flokkum milli 20 og 54 ára. Að hluta til mun sú aukning þó ganga til baka að framkvæmdunum loknum, einkum á Austurlandi.

Á undanförnum árum hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað stöðugt þótt síðastliðið ár standi upp úr. Þannig hafa einstakir árgangar verið 1-3% fjölmennari þegar þeir koma á skólaaldur en þeir voru þegar þeir fæddust.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum