Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afkomunæmi hins opinbera gagnvart hagsveiflu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt mati OECD má búast við að 1% aukning í framleiðsluspennu (mælikvarði á hagsveiflu) bæti afkomu hins opinbera í aðildarríkjum samtakanna að meðaltali um tæplega 0,5% af landsframleiðslu.

Hins vegar ber að athuga að næmi í afkomu hins opinbera gagnvart hagsveiflu er nokkuð misjafnt eftir einstökum löndum. Þannig metur OECD að umrætt afkomunæmi á Íslandi sé tæplega 0,4%, hæst í Danmörku um 0,6% og lægst í S-Kóreu liðlega 0,2% af landsframleiðslu. Þessar niðurstöður má sjá í nýjasta hefti OECD Economic Outlook (nr. 78).

Afkomunæmi hins opinbera gagnvart hagsveiflu

Á myndinni má greina eldra og nýtt mat á næmistuðlum flestra aðildarríka OECD sem endurspeglar að hluta breyttar áherslur í efnahagsstjórn. En það skal tekið fram að eldra matið var miðað við skattareglur ársins 1996 og tekjudreifingu 1992. Í nýrra matinu er viðmiðunarárið 2003 hvað snertir skattareglur og tekjudreifing miðast við 1999-2001.

Yfir heildina litið lækkar meðaltalið lítilsháttar frá eldra mati, en hjá einstökum löndum er um að ræða þó nokkuð mikla breytingu. Einna mest er breytingin hjá löndum sem voru með næma afkomu hins opinbera gagnvart hagsveiflu og eru reyndar með enn. Þessi lönd eru Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Holland þar sem dregið hefur verið úr vexti og næmi opinberra útgjalda. Í Ástralíu, Austurríki og Japan þar sem afkomunæmi hins opinbera hefur hækkað allnokkuð frá eldra mati, er hún að mestu leyti rakin til að skattar hafa sýnt sterkari svörun við hagsveiflunni en áður.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum