Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afnám eignarskatts er mikil kjarabót fyrir aldraða

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Eins og kunnugt er var eignarskattur lagður af um síðastliðin áramót. Nýlega svaraði fjármálaráðherra fyrirspurn um hlut eldri borgara í greiðslu eignarskattsins. Í svari hans kom fram að við síðustu álagningu var þeim sem eru 67 ára og eldri ætlað að greiða um 650 m.kr. í eignarskatt en álagning hans á einstaklinga nam alls 2,8 milljörðum króna.

Eins og víða annars staðar hafa Íslendingar bætt við sig eignum eftir því sem þeir eldast. Þetta á þó síður við elstu núlifandi kynslóð, þá sem fæddir eru fyrir 1930, en þeir eiga minni eignir en þær kynslóðir sem á eftir koma. Stafar þetta m.a. af því að þegar elsta kynslóðin var á þeim aldri sem fólk eykur eignir sínar mest voru minni tækifæri til eignamyndunar vegna þess að ekki var hægt að verðtryggja sparnað. Auk þess var þjóðin mun efnaminni þegar þessi kynslóð var upp á sitt besta á vinnumarkaði.

Eignarskattur árið 2005 eftir aldri framteljenda

Á meðfylgjandi mynd má sjá hve miklu máli afnám eignarskattsins skiptir eldri borgara. Enda þótt eignarskattur á mann hafi verið hæstur hjá fólki á sextugs- og sjötugsaldri þá var hann hærra hlutfall af tekjum hjá þeim sem eru enn eldri sem endurspeglar áhrifin af lægri tekjum þeirra. Þannig nam eignarskattur sem lagður var á fólk sem fætt er á þriðja áratug síðustu aldar 1,2% af heildartekjum. Afnám hans hjá þessum hópi eykur ráðstöfunartekjur hjóna um rúmlega 1,1% en einhleypra um 1,7%.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum