Hoppa yfir valmynd
21. desember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staða tvísköttunarmála - fjöldi samninga

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Það hefur verið óvenju líflegt á vettvangi tvísköttunarmála á síðustu vikum.

Viðræður hófust við Indland fyrri hluta nóvembermánaðar og er fyrirhugað að ljúka þeirri samningagerð snemma á næsta ári.

Í byrjun desember lauk samningagerð við Grikkland, sem þýðir að nú á Ísland aðeins ólokið gerð tvísköttunarsamnings við tvö af tuttugu og fimm aðildarríkjum ESB, þ.e. við Kýpur og Slóveníu, en samningagerð er þegar hafin við síðarnefnda ríkið. Allt útlit er fyrir að samningagerð við Kýpur hefjist á næsta ári og samningum ljúki við Slóveníu.

Fyrr í þessari viku gengu síðan samninganefndir Íslands og Úkraínu frá tvísköttunarsamningi milli ríkjanna, en fyrri fundur var í Kiev um mitt síðasta ár. Það þýðir að í dag er Ísland aðili að þrjátíu og tveimur tvísköttunarsamningum við þrjátíu og sex ríki, en sameiginlegur samningur er á milli Norðurlandanna.

Tuttugu og þrír samningar eru þegar í gildi og þrír bíða fullgildingar, þ.e. Ítalía, Malta og Ungverjaland. Þá bíða sex samningar undirritunar, við Austurríki, Grikkland, Króatíu, Mexíkó, Suður-Kóreu og Úkraínu.

Auk Slóveníu og Indlands stendur samningagerð yfir við Rúmeníu og mun þeirri samningagerð væntanlega ljúka snemma á næsta ári. Þá var lokið við endurskoðun á eldri samningi við Þýskaland um mitt þetta ár og stefnt að lokum endurskoðunar á samningi Íslands við Bandaríkin á fyrri hluta næsta árs.

Samkvæmt framansögðu bendir því allt til þess að við lok næsta árs verði Ísland orðið aðili að tvísköttunarsamningum við fjörtíu ríki hið minnsta. Þar af eru fimmtán þeirra gerðir á sl. fimm árum.

Á undanförnum árum hefur markmið íslenskra stjórnvalda verið að ljúka samningagerð við öll aðildarríki OECD og ESB. Af aðildarríkjum OECD eru aðeins Ástralía, Japan, Nýja-Sjáland og Tyrkland eftir, en Kýpur og Slóvenía innan ESB. Jafnframt er horft til þeirra nýju markaða sem íslensk útflutningsfyrirtæki eru að sækja inn á, s.s Búlgaríu, Chile, Suður- Afríku o.fl.

Á hinn bóginn er það ekki alltaf svo að markmið Íslands og annarra þjóða varðandi gerð tvísköttunarsamnings fari saman. Oftar en ekki er um að ræða langt ferli bæði formlegra og óformlegra samskipta áður en að hinni eiginlegu samningagerð kemur, jafnvel mörg ár. Sem dæmi má taka Japan, sem er mjög mikilvægt viðskiptasvæði fyrir Ísland. Allt frá árinu 1998 hafa átt sér stað margvísleg samskipti að frumkvæði Íslands um að hefja viðræður um gerð tvísköttunarsamnings milli landanna. Árið 2003 var haldinn óformlegur fundur í Tókýó milli samninganefnda beggja ríkja fyrir tilstilli íslenska sendiráðsins þar í landi, en formlegar dagsetningar um hvenær eiginleg samningagerð hefst liggja enn ekki fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum