Hoppa yfir valmynd
19. desember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Langtímamarkmið norrænu ríkjanna í ríkisfjármálum

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Norðurlöndin eiga það sammerkt að setja ríkisfjármálum markmið til nokkurra ára í senn.

Sameiginleg áhersla er á að halda aftur af vexti samneyslunnar og reka ríkissjóð eða hið opinbera að jafnaði með afgangi. Hér eru rakin helstu markmið í ríkisfjármálum Danmerkur, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Íslands.

Danmörk
Stjórnvöld í Danmörku setja sér markmið í ríkisfjármálum til þriggja ára en þau eru að samneysla vaxi ekki umfram 0,5% að raungildi á ári. Tekjutilfærslur, vextir og fjárfesting eru þannig utan stefnumörkunarinnar. Einnig setja stjórnvöld sér markmið um að reka hið opinbera með tekjuafgangi. Danir hafa birt langtímastefnumörkun eða framreikning ríkisfjármála með fjárlagafrumvarpi frá sjötta áratug síðustu aldar. Í Danmörku er einnig í fjárlagafrumvarpi stefnumörkun fyrir útgjöld hins opinbera í heild þar sem sett eru markmið um útgjöld ríkis og sveitarfélaga.

Finnland
Í Finnlandi setja stjórnvöld markmið um lækkun skulda og um að reka ríkissjóð með afgangi að jafnaði yfir hagsveifluna, þó þannig að halli geti aldrei farið yfir 2,75% af VLF í niðursveiflu. Finnar setja 2/3 ríkisútgjalda undir útgjaldaþak, eða ramma. Undir þakinu eru öll útgjöld að frátöldum vaxtagjöldum, sveiflukenndum útgjöldum og fjárframlögum vegna Evrópusambandsins. Fjáraukalög eru hluti af útgjaldaþakinu og er því gert ráð fyrir svigrúmi innan þaksins til að mæta óvæntum útgjöldum. Markmið ríkisstjórnarinnar er að halda aftur af ríkisútgjöldum til að ríkissjóður verði rekinn með afgangi árið 2007 í lok kjörtímabilsins. Til að ná þeim markmiðum hefur ríkisstjórnin sett fram tillögur um sparnað í öllum ráðuneytum við ákvörðun útgjaldaramma.

Noregur
Norsk stjórnvöld setja sér reglur um ráðstöfun á ávöxtun olíusjóðsins. Lögð er áhersla á að eingöngu verði ráðstafað ávöxtun sem er umfram 4% á ári. Undirliggjandi vöxtur ríkisútgjalda er 1,5% að raungildi og setja stjórnvöld sér markmið um að reka hið opinbera að jafnaði með afgangi. Norðmenn telja nauðsynlegt að sýna aðhald í ríkisútgjöldum því framreikningar sýna að olíusjóðurinn leysir ekki öldrunarvandann sem þeir standa frammi fyrir, þ.e. kostnaðinn af því að greiða lífeyri til aldraðra í gegnumstreymiskerfi.

Svíþjóð
Í Svíþjóð hafa stjórnvöld sett sér þau markmið að afgangur á hinu opinbera verði að jafnaði 2% yfir hagsveifluna. Með hinu opinbera er, auk ríkis og sveitarfélaga, meðtalið lífeyriskerfið en það skilar nú mestu upp í afganginn. Markmiðið er að búa opinber fjármál undir að takast á við aukin útgjöld vegna öldrunar þjóðarinnar. Í Svíþjóð er samþykkt heildarþak, eða rammi, fyrir ríkisútgjöldin á verðlagi hvers árs fyrir næstu þrjú ár eftir fjárlagaárið. Undir útgjaldaþakinu eru talin öll útgjöld að frátöldum vaxtagjöldum og lífeyrisútgjöldum. Svíar setja sér því bæði útgjaldaþak fyrir ríkissjóð og markmið um afgang á hinu opinbera í heild. Þannig felast í stefnunni óbein markmið um lækkun skulda.

Ísland
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið í ríkisfjármálum um að vöxtur samneyslu verði ekki umfram 2% að raungildi á ári og vöxtur tekjutilfærslna ekki umfram 2,5%. Einnig er fjárfestingu beitt til að mæta sveiflum í hagkerfinu. Sett eru markmið um að reka ríkissjóð með afgangi að meðaltali yfir hagsveifluna og því óbeint um að skuldir ríkissjóðs fari lækkandi. Ísland setur ekki markmið fyrir hið opinbera í heild og standa sveitarfélögin því hvert fyrir sig að eigin áætlunum óháð efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum