Hoppa yfir valmynd
13. desember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðstöfunartekjur aldraðra á Norðurlöndum hæstar á Íslandi

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt nýjustu samantekt NOSOSKO - Nordisk Socialstatistik um samanburð á tekjum aldraðra á Norðurlöndunum, en hún tekur til tekjuársins 2002, eru ráðstöfunartekjur aldraðra, þ.e. tekjur eftir skatta, hæstar á Íslandi.

Í samanburðinum eru tekjur aldraðra á Norðurlöndunum kaupmáttarleiðréttar í evrum þ.e. tekið er tillit til verðlags í hverju landi. Tölurnar byggjast á því að allar skattskyldar tekjur aldraðra að meðaltali eru taldar saman svo sem atvinnutekjur, fjármagnstekjur og ellilífeyrir. Gögnin eru unnin úr skattaframtölum.

Taka verður fram að tölur NOSOSKO eru meðaltöl og geta tekjur innan hópsins verið mjög mismunandi.

Ráðstöfunartekjur sambúðarfólks og einhleypra

Eins og sést á myndinni er sambúðarfólk á Íslandi með afgerandi hærri ráðstöfunartekjur en sambúðarfólk á hinum Norðurlöndunum. Einhleypir á Íslandi eru einnig með hæstu ráðstöfunartekjur eða nokkuð hærri en einhleypingar í Noregi sem koma næstir. Það ber að taka fram að staða aldraðra getur verið mjög misjöfn í einstaka löndum.

Helstu skýringarnar á því að ráðstöfunartekjur aldraðra eru hæstar á Íslandi eru þær að hér á landi eru skattar lægri og atvinnuþáttaka aldraðra á Íslandi er mun meiri en á hinum Norðurlöndunum. Þess ber auk þess að geta að á árinu 2002 rúmlega tvöfaldaðist tekjutryggingarauki Tryggingarstofnunar en í dag fá um 8.000 ellilífeyrisþegar hlutdeild í tekjutryggingarauka.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum