Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármálaráðherra á innkauparáðstefnu Ríkiskaupa

Mynd af Árna M. MathiesenRæða fjármálaráðherra á innkauparáðstefnu Ríkiskaupa, þriðjudaginn 8. nóvember 2005

Ráðstefnustjóri, góðir ráðstefnugestir!

Mikilvægi opinberra innkaupa í rekstri ríkisins hefur aukist til muna undanfarin ár. Samfara því hafa verið gerðar miklar bætur á lagaumhverfi innkaupanna og reiðir ríkið sig sífellt meir á útboð og kaup á vöru og þjónustu í stað þess að annast þessa þætti sjálft. Slíkt eykur sífellt kröfur til hins opinbera um að kaupin fari fram á gegnsæjan og upplýstan hátt, með hagkvæmni og gæði að leiðarljósi. Sérhæfing og þekking Ríkiskaupa, sem og starfsmanna ráðuneyta og stofnana hins opinbera hefur vaxið stöðugt hvað varðar vörukaup, útboð verkframkvæmda, ýmissa rekstrarverkefna og veitingu þjónustu. Þá hafa aðferðir og samskipti ríkis og einkamarkaðar við útboð og innkaup verið skýrð til muna.

Íslenska ríkið hefur ávallt verið stór kaupandi á margs konar þjónustu. Af 75 milljarða heildarinnkaupum ríkisins, má ætla að um 50 milljörðum sé veitt til kaupa á kjarnaþjónustu, stoðþjónustu og sérfræðiþjónustu. Gegna þjónustukaupin einkum tvíþættu hlutverki. Annars vegar að styðja við margþættan rekstur og hins vegar að tryggja veitingu tiltekinnar grunnþjónustu til almennings, ýmist án endurgjalds eða á lágu verði. Lengi var litið svo á að einungis ríkið gæti annast tiltekin verkefni, þar sem ríkið eitt byggi yfir nægri þekkingu og mannafla til að annast þau og nauðsynlegu skipulagi til að miðstýra þeim.

Viðhorf til rekstrar hins opinbera, hérlendis sem erlendis, hafa breyst mikið undanfarin 20 ár eða svo. Kröfur til umfangs, gæða og árangurs þjónustu hafa aukist, en á sama tíma hefur verið leitast við að halda í við vöxt útgjalda ríkisins. Veitendum þjónustu á almennum markaði hefur fjölgað, sérhæfing þeirra aukist, sem aftur hefur skapað grundvöll fyrir samkeppni og hraðari innleiðingu nýjunga og bætta þjónustu. Í allflestum tilvikum hefur þetta orðið til þess að unnt er að veita þjónustuna á hagkvæmari og gegnsærri hátt en áður.

Virkur markaður er forsenda samkeppni, sem er aftur forsendan fyrir því að ríkið geti boðið út verkefni sem verið hafa á hendi þess að meira eða minna leyti. Með samkeppni er unnt að ýta undir nýsköpun á markaðnum og til að ná fram sífellt hagkvæmari tilboðum og með gegnsærri hætti en ríkisaðilum er unnt. Til að nýir markaðir geti myndast þarf að veita svigrúm fyrir aðila sem vilja spreyta sig á einstökum verkefnum. Það er viðfangsefni stjórnvalda að skapa slíkt svigrúm og má segja að tækifærin séu endalaus í þá veru.

Með útvistun verkefna er ekki verið að einkavæða þjónustu. Með útvistun er leitast við að afla og tryggja almenningi betri þjónustu með hagkvæmari hætti en áður. Hlutverk ríkisins breytist ekki að því leytinu til að það tryggir áfram fjármögnun í samræmi við þær þjónustukröfur sem það hefur skilgreint og annast eftirlit með að þjónustan sé veitt eins og til er ætlast.

Ríkið þarf stöðugt að endurmeta hlutverk sitt í þjónusturekstri og aðgreina stjórnsýslu og almenna þjónustu eftir því sem frekast er kostur. Jafnframt þarf ríkið að hafa skýra stefnu um hvernig skuli staðið að útvistun og verklagi við kaup á þjónustu.

Í fjármálaráðuneytinu hefur undanfarið verið unnið að stefnumótun um útvistun þjónustu og bætt verklag við gerð þjónustusamninga. Markmið hennar er að auðvelda ráðuneytum og ríkisstofnunum að meta árangur og fyrirkomulag núverandi þjónustu á samræmdan hátt og meta tækifæri sem falist geta í útvistun verkefna. Þessi vinna kemur í framhaldi af innkaupastefnu ríkisins sem samþykkt var í árslok 2002, en hún leggur meðal annars áherslu á aukin útboð og útvistun á rekstrarverkefnum. Verður væntanleg útvistunarstefna því útfærsla á þessum þætti innkaupastefnunnar.

Sem fyrr segir nema innkaup ríkisins í kringum 75 milljörðum króna eða um þriðjungi af heildarútgjöldum þess ár hvert. Þar af má ætla að kaup ríkisins á þjónustu og útvistuð þjónustuverkefni sem ríkið kostar að hluta eða öllu leyti nemi um 50 milljörðum. Þegar horft er til þessa umfangs má fullyrða að bætt verklag og kröfur sem gerðar eru til innkaupa geti haft veruleg áhrif á rekstur ríkisins og gæði þeirrar þjónustu sem það veitir.

Í skýrslu sem nýverið kom út á vegum OECD eru um tuttugu Evrópuþjóðir bornar saman, er varðar hlutfall kostnaðar vegna innkeyptra vara og útvistaðra þjónustuverkefna gagnvart þeim verkefnum sem ríkin annast með eigin rekstri. Í ljós kemur að íslenska ríkið stendur fyrir miðju í þessum samanburði og kemur á eftir Noregi, Finnlandi og Svíþjóð hvað útvistun varðar. Þannig er áætlað að innkaup vara og þjónustu íslenska ríkisins jafngildi 45 af hundraði gagnvart 55 af hundraði sem ríkið hefur sjálft með höndum. Í Noregi sem dæmi nema innkaup vara og útvistun verkefna um 60 af hundraði og í Bretlandi er þetta sama hlutfall innkaupa og útvistunar 80 af hundraði á móti 20 af hundraði sem unnin eru innan vébanda ríkisins, ef marka má skýrsluna.

Hvað sem þessu líður, er ljóst að skoða þarf með markvissum hætti þá kosti sem til eru varðandi útvistun verkefna og tækifæri sem falist geta í því að láta hæfa aðila á einkamarkaði annast tiltekin verkefni, að undangengnu útboði. Í þessu sambandi ber að undirstrika að jafn ríkar kröfur ber gera um hagkvæmni og gæði við veitingu þjónustu, hvort sem hún er rekin á vegum ríkisins eða veitt fyrir milligöngu þjónustuveitanda á markaði. Þá þarf að festa betur í sessi verklag við útboð og gerð samninga sem nú þegar eru í gildi milli ríkis og þjónustuaðila.


Góðir ráðstefnugestir!

Meðal annarra mála sem unnið er að á sviði innkaupa í ráðuneytinu þessa dagana er nýtt frumvarp til laga um opinber innkaup. Þótt núgildandi lög séu tiltölulega nýleg eða frá árinu 2001, ber okkur, samkvæmt EES samningnum að innleiða í landslög efni tveggja tilskipana Evrópusambandsins, sem gildi tóku í fyrra. Verður nýjum efnisatriðum frumvarpsins gerð nánari skil á ráðstefnunni síðar í dag. Standa vonir mínar til að frumvarpið verði lögfest á vorþingi, en frumvarpið verður áður en langt um líður sent til umsagnar hjá hagsmunaaðilum.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á rafræn innkaup undanfarin ár. Samningur sem gerður var við ANZA árið 2002 rennur sitt fjögurra ára skeið á enda í mars á næsta ári, en heimild er fyrir framlengingu samningsins til eins árs. Innan ráðuneytisins og Ríkiskaupa hefur undanfarið verið rætt um gengi torgsins og framhald samningsins, en væntingar um notkun þess hafa til þessa ekki gengið fyllilega eftir. Á síðustu misserum hafa vonir hins vegar glæðst um að rafræn innkaup á vefnum séu að taka við sér og fleiri öflugir kaupendur og seljendur komi að málum. Er því ekki enn útséð hvert framhaldið verður í þeirri þróun torgsins sem unnið hefur verið að með ANZA.

Ráðuneytið hefur einnig í undirbúningi sérstaka aðgerðaráætlun um innleiðingu og eflingu rafrænna opinberra innkaupa. Tekur þessi vinna mið af stefnu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett og ber heitið, Action Plan for the implementation of the legal framework for electronic public procurement. Henni er ætlað er til að efla það umhverfi og umgjörð sem rafrænum innkaupum eru búin, einkum með hliðsjón af því regluverki sem sett hefur verið um opinber innkaup. Vænti ég þess að samráð verði haft við einkamarkaðinn um setningu þessarar stefnu, enda sameiginlegt hagsmunamál ríkis sem einkamarkaðar að efla rafræna innkaupahætti.


Góðir fundarmenn!

Það hefur verið stefna þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn að ríkið eigi ekki að vera að vasast í rekstri sem einkaaðilar geta séð um. Þetta hefur skilað okkur því að nánast öll ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd. Einkavæðingin hefur eflt efnahagslífið til muna og á stóran þátt í stöðugum uppgangi þess. En betur má ef duga skal og liggja klárlega ýmis tækifæri í útvistun á þjónustu ríkisins. Ráðstefnan hér í dag er mikilvægt innlegg í þá þróun og þá umræðu eins og dagskrá hennar ber með sér.

Ég óska þátttakendum góðs gengis á ráðstefnunni hér í dag og lýsi hana hér með setta.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum