Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra á ráðstefnunni; Flatur skattur eða lægri matarskattur?

Ágætu fundarmenn!

Mynd af Árna M. MathiesenÁ Íslandi ríkir almenn sátt um að samfélagið myndi traust öryggisnet fyrir þegna landsins og að ríkið skuli veita ákveðna grunnþjónustu sem allir hafi tækifæri til að njóta. Heilbrigðisþjónusta, öflugt velferðarkerfi og jöfn tækifæri til menntunar eru dæmi um þetta. Hins vegar greinir stjórnmálamenn og fleiri á um það hvaða leiðir við stjórn ríkisfjármála skuli fara til þess að standa undir útgjöldum ríkisins um leið og við byggjum upp öflugt og framsækið samfélag. Almennt má segja að stefna ríkisstjórnarinnar hafi verið að lækka álögur hins opinbera, gera efnahagsumhverfið skilvirkara meðal annars með því að draga ríkið út úr atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta leyst og að skapa umgjörð sem ýtir undir aukna skilvirkni og framlegð fyrirtækjanna. Skýrasta dæmið um árangur á því sviði er eflaust hvernig fyrirkomulag fiskveiða hefur verið þróað hér á landi.

Skattar og aðrir tekjustofnar ríkisins þurfa að vera í sífelldri endurskoðun og því er það gott framtak hjá Rannsóknasetri verslunar og þjónustu að gera jafn ítarlega úttekt á skattlagningu vöru og þjónustu á Íslandi og raun ber vitni. Í skýrslunni er gerður samanburður á álagningu hins opinbera á vöru og þjónustu í samanburði við önnur lönd sem er gott að fá fram. Það er hins vegar alltaf spurning hvar á að draga línuna í slíkum samanburðarfræðum og það verður vart hjá því komist að skoða skattlagningu í víðara samhengi en gert er í skýrslunni.

Meginmarkmið núverandi ríkisstjórnar er að skapa íslensku atvinnulífi þá skattalegu umgjörð að fyrirtæki jafnt sem einstaklingar sjái sér hag í því að starfa áfram hér á landi. Á síðastliðnum 17 árum hefur íslensku skattkerfi nánast verið umbylt. Það á ekki hvað síst við um skattalegt umhverfi fyrirtækja. Þar eru fyrirtæki í verslun og þjónustu síður en svo undanskilin, enda hafa ýmsir skattar sem lögðust sérstaklega þungt á þessar greinar verið afnumdir. Má þar fyrst nefna aðstöðugjaldið sem var einskonar veltuskattur sem safnaðist upp í verði vöru og þjónustu. Sama má segja um sérstakan eignarskatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, mjög sértækan skatt, sem skapaði mikið ójafnræði milli atvinnugreina, verslun og þjónustu í óhag. Svipaða sögu er að segja af launaskattinum, forvera tryggingagjaldsins, sem var meira en tvöfalt hærri á laun í verslun og þjónustu, en í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði. Í dag búa allar atvinnugreinar við sömu launatengdu gjöldin. Þá njóta fyrirtæki í verslun og þjónustu einnig góðs af almennri lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 50% í 18% og afnámi eignarskatta á sama hátt og fyrirtæki í öðrum greinum. Þessar breytingar hafa gjörbreytt samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum – enda megintilgangurinn - og vonandi gert sitt til að halda verslun og þjónustu í landinu.

Skattabyltingin náði einnig til neysluskattanna, en þeir eru meginviðfangsefnið í skýrslu Rannsóknarsetursins. Virðisaukaskattur var tekinn upp í stað söluskattsins, en sá síðarnefndi hafði mjög óæskileg uppsöfnunaráhrif í allri verðmyndun. Þá hefur vörugjaldskerfið þrátt fyrir allt verið einfaldað til stórra muna á þessu tímabili, jafnframt því sem gjöldin hafa lækkað, ekki síst á bifreiðum. Sama má segja um tolla almennt, þó enn séu nokkuð háir tollar á landbúnaðarvörum eins og réttilega er beint á í skýrslunni. Í því sambandi þarf hins vegar að hafa í huga að nú standa yfir samningaviðræður innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, þar sem harkalega er tekist á um ríkisaðstoð í landbúnaði. Ef fram fer sem horfir í þeim viðræðum er  líklegt að gildandi tollar á landbúnaðarvörum munu lækka til stórra muna. Raunar er sömu sögu að segja af tollum á iðnaðarvöru hvers konar, s.s. fatnað, vélar, tæki o.fl. , frá löndum utan EES-svæðisins og þeim sem við höfum ekki gert fríverslunarsamning við, en miðað við stöðu viðræðnanna í dag munu þeir tollar lækka um þriðjung hið minnsta.  Sem dæmi er tollur á innfluttan fatnað frá Asíu 15% í dag, en gæti orðið eins stafs tala náist samningar milli aðildarríkja WTO í Hong Kong um miðjan desember.

Með þessu er þó ekki verið að segja að ekki sé þörf frekari úrbóta. Eins og fram kemur í umræddri skýrslu eru enn ýmsir hnökrar í skattkerfinu, þar á meðal í álagningu vörugjalda, þó margar breytingar til hins betra hafi verið gerðar síðustu ár. Á undanförnum mánuðum hafa sérfræðingar fjármálaráðuneytisins verið að skoða einstaka þætti í álagningu vörugjalda og er skýrsla Rannsóknarseturs óneitanlega mikill viðbótarfengur í þá vinnu. Ljóst er að ýmissa lagfæringa er þörf varðandi álagningu vörugjalda í ákveðnum vöruflokkum, sem eru til frekari skoðunar í ráðuneytinu. Of snemmt er því að segja til um hvort sú skoðun muni leiða til breytinga á vörugjaldi á yfirstandandi þingi. Þá hefur umræða undangengna mánuði um mögulegar breytingar á virðisaukaskatti ekki farið fram hjá neinum, en eins og ég hef áður lýst yfir opinberlega hafa engar ákvarðanir enn verið teknar af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Margt hefur áunnist nú þegar eins og hér hefur komið fram, en betur má ef duga skal. Enn er ýmislegt óunnið, ekki síst á sviði neysluskatta, sem vonandi næst að hrinda í framkvæmd á þessu kjörtímabili.  Við það verk megum við þó aldrei missa sjónar af heildarmyndinni og því ábyrgðarhlutverki sem ríkisfjármálin gegna sem hagstjórnartæki í því að skapa eðlilegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Ríkisstjórnin er skattalækkunarríkisstjórn og það hefur hún sýnt á undanförnum árum.

Ég vil líka ítreka það sem ég hef áður sagt á öðrum vettvangi að það var rangt að hækka skatta fljótlega eftir að nýtt skattafyrirkomulag var tekið upp árið 1988 þegar við tókum upp staðgreiðsluna. Við upphaf staðgreiðslukerfisins var tekjuskattshlutfall ríkisins 28,5% en hækkaði síðan jafnt og þétt næstu árin svo að árið 1991 var þetta hlutfall orðið 32,8% og hafði því hækkað um 15%.

Nú er öldin önnur og blaðinu verið snúið algerlega við. Eftir rúmt eitt ár eða árið 2007 verður búið að lækka tekjuskatt ríkisins á einstaklinga niður í 21,75% árið 2007 og mun lækkunin frá 1991 nema um 34%. Sé horft til yfirfærslu á hluta af tekjuskatti ríkisins yfir í útsvar sveitarfélaga þá er raunlækkunin 28%. Hátekjuskatturinn verður lagður niður frá og með næstu áramótum og sama má segja um eignaskattinn. Þá hefur fjármagnstekjuskatturinn, að undanskildum sköttum á vexti sem voru skattfrjálsir, verið lækkaður niður í 10%. Lækkun hans er sennilega eitt skýrasta dæmið um það hvernig skattalækkun getur leyst krafta úr læðingi og aukið um leið tekjur ríkissjóðs. Þetta er það leiðarljós sem ríkisstjórnin leggur til grundvallar í ákvörðunum sínum í skattamálum.  

Að lokum vil ég segja að í mínum huga stendur valið ekki einungis um það hvort taka skuli upp flata skatta eða lækka matarskatt. Íslenskt viðskiptalíf þarf að búa við efnahagsumhverfi sem hefur yfirburði í samanburði við önnur lönd. Því fylgir óneitanlega að skattkerfið verður að vera gegnsætt og einfalt. Lækkun skatta leysir úr læðingi krafta atvinnulífsins og stuðlar að því að fyrirtæki og einstaklingar sjái sér hag í að starfa og búa hér á landi. Grundvallar atriðið er því að skattar séu lágir og því mun ég beita mér fyrir því að þeir lækki enn frekar og ég veit að ríkisstjórnin mun áfram fylgja stefnu skattalækkana.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum