Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að frumvarpi til nýrra laga um vátryggingastarfsemi birt til umsagnar

Nefnd á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis sem skipuð var í október 2010 hefur unnið að gerð frumvarps til nýrra laga um vátryggingastarfsemi sem liggur nú fyrir í drögum og óskað er umsagna um. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram á nk. haustþingi og miðast gildistaka þess við 1. janúar 2016. 

Tilskipun 2009/138/ESB (Solvency II) og markmið

Í nefndinni sátu sérfræðingar tilnefndir af ráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga. Nefndinni var ætlað að leiða í lög reglur tilskipunar 2009/138/ESB, um stofnun og starfrækslu vátryggingafélaga, sem nefnd er Solvency II tilskipunin. Helsta markmið tilskipunarinnar er að samræma lagaumhverfi vátryggingafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu, tryggja fjárhagslegan stöðugleika á vátryggingamarkaði og bæta neytendavernd.

Helstu ástæður nýrra reglna á vátryggingamarkaði

Helstu ástæður þess að ráðist var í gerð tilskipunarinnar voru að reglur um vátryggingastarfsemi samkvæmt Solvency I sem gildandi lög hér á landi eru byggð á voru ekki taldar nógu áhættumiðaðar og þar með ekki jafn auðvelt að meta áhættur vátryggingafélaga. Einnig skorti ákvæði til þess að unnt væri að meta snemmbúin merki um hættu í rekstri félaganna. Reglurnar voru heldur ekki taldar leggja næga áherslu á gæði stjórnarhátta vátryggingafélaga.

Ákvæði frumvarpsins varðandi fjárhagsgrundvöll og stjórnarhætti vátryggingafélaga eru því mun ítarlegri en gildandi lög og allar reglur útfærðar ítarlegar en í gildandi lögum.     

Til að ná markmiðum frumvarpsins eru ákvæði um gjaldþol vátryggingafélaga mun ítarlegri og ennfremur eru gjaldþolskröfur áhættumiðaðar og þær ná til fleiri áhættuþátta. Gjaldþol er það fjármagn sem vátryggingafélag þarf að hafa tiltækt til að mæta óvæntum áföllum sem ekki er gert ráð fyrir í vátryggingaskuld. Vátryggingaskuld er það fé sem vátryggingafélag þarf að hafa til að mæta skuldbindingum vegna vátryggingarsamninga. 

Vegna breyttra reglna um fjárhagsgrundvöll vátryggingafélags verður verklag við eftirlit áhættumiðað. Verklag við eftirlit verður samræmt á EES-svæðinu og greining á veikleikum og áhættu vátryggingafélags verður meiri og vandaðri. Reglur og aðferðir Fjármálaeftirlitsins við eftirlit með vátryggingafélögum munu breytast vegna þessa.

Breytingar á tilskipun 2009/138/ESB

Veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á upphaflegu Solvency II tilskipuninni frá því hún var gefin út sem tilskipun nr. 2009/138/ESB. Vegna breytinga á valdheimildum sem nýjar evrópskar eftirlitsstofnanir fengu þurfti að breyta tilskipuninni og hófst þá vinna við svokallaða Omnibus II tilskipun, tilskipun 2014/51/ESB. 

Frumvarpið byggir því einnig á ákvæðum tilskipunar 2014/51/ESB en þau ákvæði fela meðal annars í sér nánari útfærslu á ákvæðum Solvency II, t.d. ákvæði um mat á eignum og skuldum.  Þá eru frekari ákvæði um áhættustýringu, eftirlitsferli og upplýsingagjöf.

Til hægðarauka er umfjöllun um einstakar greinar í frumvarpsdrögunum á eftir hverri grein en almenn umfjöllun er aftast.  Ráðuneytið óskar  eftir umsögnum og athugasemdum þeirra er efni frumvarpsins varðar og er umsagnarfrestur til og með 24. september nk.

Umsagnir og athugasemdir skulu berast til: [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum