Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Heildarlög um stofnanakerfi ríkisins undirbúin

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja undirbúning að gerð heildarlaga um stofnanakerfið.

Tillagan felur í sér að: ·


  •  Unnið verði frumvarp um heildarlög fyrir stofnanakerfi ríkisins
  • Endurskoðuð verði sérlög um stofnanir, sem setning heildarlaga kallar á, þar sem samræma þarf ákvæði um um stofnanagerð, heiti stofnana, staðsetningu, forstöðumenn og stjórnir.
  • Skoðað verði hvort æskilegt sé að ákvæði um forstöðumenn í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um kjararáð færist inn í heildarlögin.
Tillagan byggir á niðurstöðum verkefnisstjórnar um stofnanakerfi ríkisins sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í fyrravor. Framkvæmd þessa verkefnis kallar á góðan undirbúning og samráð við aðila innan Stjórnarráðsins, stéttarfélög, forstöðumenn o.fl.  

Í greiningu verkefnisstjórnarinnar á ýmsum þáttum stofnanakerfisins var m.a. lögð áhersla á að móta tillögur um stofnanir og stjórnsýslukerfið, rekstrarform, yfirstjórn ráðuneyta, forstöðumenn og stjórnir.  

Stofnanakerfið hefur mótast á löngum tíma út frá mismunandi sjónarmiðum og hafa tilviljanir oft ráðið því frekar en markviss stefna hvaða form einstakar stofnanir hafa fengið.  Áherslur í stjórnun stofnana hafa einnig breyst mikið hér á landi á síðustu áratugum í takti við alþjóðlega þróun sem hefur grundvallast á aukinni valddreifingu frá ráðuneytum til stofnana án þess þó að yfirstjórn ráðuneyta hafi náð að aðlagast breyttu hlutverki sem skyldi. Sú þróun kann að hafa gengið of langt hér á landi og er ýmislegt sem háir íslenska stofnanakerfinu í dag, s.s. óhagkvæmar minni stofnanir, skortur á samhæfingu og sveigjanleika, auk þess sem umboðs- og ábyrgðartengsl má skýra betur.  

Tillögur verkefnisstjórnarinnar geta leitt til verulegrar samræmingar innan stofnankerfisins hvað varðar þætti eins og stjórnsýslustöðu stofnana, rekstrarform, yfirstjórnarhlutverk ráðuneyta, stjórnunarumboð forstöðumanna, ábyrgð og skyldur stjórna o.fl.  

Til að ná fram markmiðum um skilvirkara og betur skipulagt stofnanakerfi telur verkefnisstjórnin nauðsynlegt að endurskoða sérlög um stofnanir, lög um réttindi og skyldur starfsmanna og lög um kjararáð.  Endurskoðun á lagaramma kjara- og mannauðsmála, að höfðu samráði við stéttarfélög er m.a. ætlað að skapa bættar forsendur fyrir nútímalegri mannauðsstjórnun og til að draga úr þeim mun sem er á milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera þegar kemur að kjörum, réttindum og skyldum.  Við slíka endurskoðun þyrfti að skoða mjög náið hvort hægt væri að færa ákvæði um tiltekin réttindi starfsmanna ríkisins inn í kjarasamninga. Mun fjármála- og efnahagsráðherra undirbúa slíka endurskoðun og leggja fyrir ríkisstjórn tillögur um hvernig að henni verði staðið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum