Hoppa yfir valmynd
16. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skilyrði niðurfellingar vörugjalda á bifreiðar fatlaðs fólks útvíkkað 

Einfaldari og skýrari reglur voru hafðar að leiðarljósi í breytingum á lögum um tekjuskatt ofl. sem Alþingi samþykkti í gær. Breytingarnar hafa meðal annars í för með sér að allur vafi er tekinn af um skilyrði niðurfellingar vörugjalda á bifreiðar fatlaðs fólks. 

Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefur verið farið ítarlega yfir ákveðin atriði skatta- og tollalöggjafarainnar í því skyni að styrkja framkvæmd laganna og auka réttaröryggi. Ávinningur breytinganna sem nú hafa verið samþyktar eru skýrari og gagnsærri reglur til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki. 

Breytingarnar snúa m.a. að skilyrðum vegna bifreiða fatlaðs fólks sem undaþegnar eru vörugjaldi skv. lögum nr. 23/1993, um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti, ofl. en í eldri lögum var óljóst hvort ýmis annar búnaðar en hjólastólalyftur félli undir undanþáguna. 

Með lagabreytingunum er allur vafi tekinn af um að skilyrði niðurfellingar vörugjalda samkvæmt ákvæðinu er að bifreiðar séu búnar hjólastólalyftu eða sambærilegum búnaði. Með tækniþróun á sviði hjálpartækja á undanförnum árum standa fötluðum einstaklingum nú til boða ýmis önnur hjálpartæki en hjólastólalyftur. Þessi hjálpartæki eru til að mynda skábrautir og sérútbúin sæti með snúnings- eða lyftubúnaði. Hjálpartæki þessi kalla á umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar á bifreiðum rétt eins og þegar hjólastólalyftu er komið fyrir. Af þeim sökum þótti rétt að breyta lögunum þannig að bifreiðar sem breytt hefur verið með þessum hætti verði einnig undanþegnar vörugjöldum. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum