Hoppa yfir valmynd
8. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áframhaldandi upplýsingafundir að því er varðar losun gjaldeyrishafta (LBI)

Ensk útgáfa er upprunaleg útgáfa

Í dag tilkynnti fjármálaráðuneytið að haldið hafi verið áfram með upplýsingafundi með aðilum sem verða fyrir áhrifum gjaldeyrishaftanna á Íslandi um tillögur sem stjórnvöld eru að íhuga um losun þeirra hafta.

Meðlimir framkvæmdahóps Íslands um losun gjaldeyrishafta (stofnaður af fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands árið 2014) og ráðgjafar þeirra hafa haldið röð upplýsingafunda undanfarna tvo mánuði, m.a. með fulltrúum lítils hóps fjárfesta sem eiga verulegar kröfur í bú þriggja stóru íslensku bankanna sem urðu greiðsluþrota árið 2008, Kaupþing hf., Glitnir hf. og Landsbanki Íslands hf.   Framkvæmdahópurinn heyrir undir stýrinefndina um afnám gjaldeyrishafta, sem skipuð er fjármálaráðherra, seðlabankastjóra og fulltrúum forsætisráðuneytisins.

Á þessum upplýsingafundum með kröfuhöfum slitabúanna ræddi framkvæmdahópurinn fyrstu tillögur sínar til stýrinefndarinnar um það hvernig gjaldeyrishöftin – að svo miklu leyti sem þau hafa áhrif á slitabú þriggja stóru föllnu bankanna – gætu verið afnumin.  Framkvæmdahópurinn útskýrði að innlendar eignir búanna (að mestu í íslenskum krónum)  ógnuðu greiðslujöfnuði Íslands og áætluninni um efnahagslega endurreisn.  Framkvæmdahópurinn greindi frá því að hann íhugaði að leggja það til að allar eignir slitabúanna þriggja gætu, í kjölfar nauðasamninga sem staðfestir væru af íslenskum dómstólum, verið greiddar út til kröfuhafa í slitameðferðunum í kjölfar greiðslu hvers bús á stöðugleikaskatti, sem innheimtur skyldi einu sinni.   Fyrstu ráðleggingar framkvæmdahópsins höfðu að geyma greiningu fyrirhugaðra lagabreytinga með það í huga að greiða fyrir gerð nauðungasamninga fyrir búin.  Samkvæmt frumgreiningu framkvæmdahópsins þyrfti að setja 37% stöðugleikaskatt á heildareignir hvers bús (eins og þær voru metnar við lok júní 2015) til að ná fram því markmiði að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafaði, með frádrætti frá heildareignum fyrir 45 milljarða íslenskra króna fyrir hvert bú, sem myndi færa virka skattprósentu í 35%.   Tillagan sem var til skoðunar hjá framkvæmdahópnum myndi einnig gera búunum kleift að nota hluta eigna sinna í langtíma fjárfestingar á Íslandi.   Slíkar fjárfestingar gætu lækkað skattstofn bús og lækkað þannig virka skattprósentu stöðugleikaskattsins eins og hann yrði lagður á búið.  Þegar skatturinn hefði verið greiddur gætu búin greiðlega ráðstafað eignunum sínum og greitt þær út, og hægt væri að greiða stöðugleikaskattinn í hvaða gjaldeyri sem búið kysi, þ.m.t. íslenskum krónum.

Í kjölfar þessa funda hefur fjármálaráðuneytið haldið áfram að móta frumvarp um stöðugleikaskatt, þ.m.t. að því er varðar skattprósentuna, undanþáguskilyrðin og heimildir til langtímafjárfestinga.   Fjármálaráðuneytið reiknar með að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í dag.

Stýrinefndin hefur líka sjálfstætt skoðað ramma (stöðugleikaskilyrði), sem framkvæmdahópurinn hefur þróað, til að greina og takast á við afleiðingar innlendra eigna í eigu búa þriggja stóru föllnu bankanna á greiðslujöfnuð.

Framkvæmdahópurinn hefur einnig tekið við tillögum frá kröfuhöfum sem sótt hafa þessa fundi um valfrjálsar ráðstafanir að þeirra frumkvæði sem gerðar eru með það í huga að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafar vegna innlendra eigna í búunum.   Í þessum tillögum er íhugað að bregðast við þeirri ógn bæði með greiðslu stöðugleikaframlags ásamt öðrum ráðstöfunum sem ætlað er draga úr útflæði króna sem hafa verið fastar í gjaldeyrishöftum og efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands.

LBI

Einkum, að því er varðar LBI, voru haldnir upplýsingafundir milli (i) hóps eigenda krafna í bú LBI sem sæta höftum og ráðgjafa þeirra og (ii) meðlima framkvæmdahópsins og ráðgjafa Íslands.

Hinn 8. júní 2015, og í ljósi þessa upplýsingafunda,  fyrir hönd þeirra kröfuhafa sem tóku þátt í upplýsingafundunum í slitabú LBI, fjármálaráðherra (sem formanns stýrinefndarinnar) tillögu sem byggði á samræðum þeirra við framkvæmdahópinn og ráðgjafa Íslands um eftirfarandi atriði:

Tillaga kröfuhafa LBI var gerð með tilliti til fyrri aðgerða af hálfu LBI, eftir tilmælum og með samþykki Seðlabanka Íslands (SÍ), til að takast á við áhrif Landsbankans og Avens, tveggja af stærstu eignum LBI, á greiðslujöfnuð.  Aðgerðirnar sem koma fram í tillögu kröfuhafa LBI eru eftirfarandi:

Kröfuhafar í slitabú LBI myndu beita sér fyrir því að slitabúið leggi fram stöðugleikaframlag til íslenskra stjórnvalda sem myndi felast í:

Lausu fé LBI í íslenskum krónum frá og með gildistökudegi nauðasamninga búsins, að frátöldum

Varasjóðum (eins og þeir eru skilgreindir hér fyrir neðan), auk

handbærs fjár í íslenskum krónum, eftir því hvort gerist fyrr (i) við lok slita búsins í kjölfar nauðasamninga eða (ii) 31. desember 2018, , (þ.m.t. það sem eftir stendur af varasjóðum að aflokinni greiðslu innlendra lágmarkskrafna og kostnaðar í íslenskum krónum af þeirri gerð sem mynda viðbótarvarasjóð (eins og hann er skilgreindur hér fyrir neðan); að því tilskildu að LBI afhendi SÍ, eða aðila sem SÍ tilnefnir, fyrir 31. desember 2018, fjármuni í varasjóð sem ekki er lengur heimilt að nota í þeim tilgangi sem þar er mælt fyrir um; auk

yfirfærðra eigna (eins og þær eru skilgreindar hér fyrir neðan).

Það mun verða þáttur í stöðugleikaframlagi LBI að yfirfæra eða úthluta til SÍ, eða annars slíks aðila sem SÍ tilnefnir, innlendar eignir sínar að því marki sem hægt er að innleysa í íslenskum krónum svo að framtíðarendurheimtur búsins í íslenskum krónum verði hluti af stöðugleikaframlaginu.  Yfirfærðar eignir samstanda af:

Því sem búið á af (i) eignum í íslenskum krónum (ii) kröfum og ágreiningskröfum á hendur innlendum aðilum (eins og skilgreint er í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, og (iii) eignum í erlendum félögum  í íslenskum krónum á hendur innlendum aðilum, í hverju tilviki fyrir sig aðrar en hægt er að innleysa í erlendum gjaldeyri, þar sem áætlað endurheimtanlegt virði er talið jafngilda allt að 9,5 milljörðum króna frá og með 31. desember 2014, og

Innlendar gjaldeyriseignir búsins, aðrar en reiðufé, sem ekki eru studdar eða varðar með gjaldeyri sem aflað er utanlands, þar sem áætlað endurheimtanlegt virði er talið jafngilda 0,7 milljörðum króna frá og með 31. desember 2014.

Til yfirfærðra eigna teljast ekki: (i) skuldabréf LB; (ii) skuldabréf Avens; (iii) skuldabréf Landsvirkjunar; (iv)  kröfur LBI á hendur búa Baugs Group, ehf., BG Holding ehf., Kaupþings hf. og Glitnis hf., í hverju tilviki að því marki sem endurheimtur ráðast ekki af gjaldeyrisviðskiptum innanlands); (v) skaðabætur og ógildingarmál sem enda í uppgjöri í erlendri mynt (þ.m.t. samkvæmt tryggingasamningum) frá erlendum aðilum, og (vi) eignarhlutir í eða kröfur á fyrirtæki sem hafa yfir 80% af tekjum og 80% af gjöldum erlendis eins og mælt er fyrir um í 6. mgr. 13. gr. n. laga um gjaldeyrismál.

LBI mun halda áfram að halda reiðufé í varasjóði (varasjóði fyrir ágreiningskröfur eins og skylt er samkvæmt gjaldþrotalögum) til að mæta vissum stórum 109.-111. gr. ágreiningskröfum af hálfu Glitnis hf., BG Holdings ehf. og Kaupþings hf. í LBI (forgangságreiningskröfum sem hefur verið hafnað); að því tilskildu að LBI og slitastjórn muni áfram viðhalda góðri framkvæmd við að leysa úr slíkum kröfum, m.a. með því að halda áfram að sækja eða verja þær fyrir íslenskum dómstólum.

LBI mun stofna viðbótarvarasjóð, allt að 3 milljörðum króna, vegna innlendra krafna og annarra sanngjarnra, staðfestra og skjalfestra útgjalda í íslenskum krónum sem tengjast slitum búsins (sem skulu ekki fela í sér fjárhæðir greiddar vegna hvatakerfis stjórnenda eða bónusgreiðslna) og til greiðslu lágmarksfjárhæða til innlendra kröfuhafa í íslenskum krónum, í tengslum við nauðasamninga samkvæmt tillögu kröfuhafa (viðbótarvarasjóður). Samanlögð heildarfjárhæð viðbótarvarasjóðsins er að hámarki 3 milljarðar króna. Fjárhæð slíks varasjóðs byggist á meðalrekstrarkostnaði búsins í íslenskum krónum árin 2013 og 2014.  Við nauðasamning mun LBI stofna reikning hjá innlendum viðskiptabanka þar sem viðbótarvarasjóðurinn verður geymdur. Varasjóðurinn fyrir ágreiningskröfur og viðbótarvarasjóðurinn eru kallaðir varasjóðir.

Kröfuhafar LBI samþykkja að efna loforð um að öllum mikilvægum aðgerðum af hálfu aðila verði lokið eigi síðar en 31. desember 2015.

Til að hraða endurgreiðslu á 112. gr. kröfum LBI að fullu fyrir 31. desember 2015, í reiðufé, samþykkja kröfuhafar LBI að tryggja fjármögnun (112 forgangsfjármögnun) til LBI, með skilmálum sem eru enn ósamþykktir, á eftirfarandi grundvelli:

slík fjármögnun skal tryggð með öllum eða flestum eignum LBI og njóta forgangs umfram 113. gr. kröfur og fjárfestingar í skulda- og hlutabréfum sem 113. gr. kröfuhafar fá í nauðasamningum LBI (að undanskildum lágmarksgreiðslum til 113. gr. kröfuhafa til að greiða fyrir nauðasamningi);

þátttaka í slíkri fjármögnun skal boðin öllum 113. gr. kröfuhöfum í nauðasamningnum í hlutfalli við kröfueign;

slík fjármögnun skal vera í samanlagðri höfuðstólsfjárhæð í erlendum gjaldeyri, sem nemur 65 milljörðum króna að hámarki, og vera tiltæk við nauðasamning; og

slík fjármögnun er háð:

fyrirframgreiðslu SÍ á Avens skuldabréfinu í evrum með fjárhæð sem jafngildir u.þ.b. 30 milljörðum króna;

endurgreiðslu LB á áhættulagi LB skuldabréfs sem fellur í gjalddaga í október 2016 (með fjárhæð sem jafngildir u.þ.b. 31 milljarði króna);

lagabreytingum sem þörf kann að vera fyrir til að gera búinu kleift að undirgangast slíka fjármögnun;

greiðslu búsins á tiltæku reiðufé til 112. kröfuhafa (þ.m.t. reiðufé í erlendum gjaldeyri sem hægt er að taka úr varasjóði fyrir ágreiningskröfur); og

því að engar meiriháttar breytingar verði á safni forgangskrafna búsins fyrir 31. mars 2015.

Að því gefnu að nauðasamningar náist með þeim hætti sem áætlað er hér, mun LBI einhliða veita LB rétt til að breyta (breytingavalrétt) gildandi tryggðu LB skuldabréfi í markaðsgerning í evrum samkvæmt EMTN-skuldabréfaramma sínum til að aðstoða LB við að ná fram ótryggðri fjármögnun sem er eins og  gerist almennt á markaði. Breytingavalrétturinn skal samþykktur af LBI og vera háður því skilyrði að LB hafi lánshæfismat fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt sem er minnst BB+ hjá Standard & Poor's eða Ba1 hjá Moody's á þeim degi þegar breytingavalrétturinn er nýttur.  Breytingavalréttinn má nýta hvenær sem er frá þeim degi þegar nauðasamningur LBI er samþykktur samkvæmt IX. kafla laga um gjaldþrotaskipti þar til (i) 15. desember 2016 eða (ii) 15 mánuðum eftir samþykkt nauðasamningsins af hálfu íslenskra dómstóla, eftir því hvort er fyrr.  Vísanir til markaðsskilmála (eða svipaðs) slíkra EMTN-skuldabréfaramma skulu staðfestar og studdar mati fjárfestingabanka sem er þekktur á alþjóðavettvangi, óháður hópi kröfuhafa LBI og LB velur og hefur nýlega gefið ú skuldabréf á Íslandi (fjárfestingabanki).

Útgreiðslur til kröfuhafa myndu ganga greiðlega þegar (i) afgangskröfur 112. gr. hafa verið greiddar (ii) stöðugleikaframlagið hefur verið lagt fram (iii) yfirfærðar eignir hafa verið yfirfærðar eða þeim úthlutað, (iv) breytingavalrétturinn hefur verið veittur og allar aðgerðir og ráðstafanir sem þessu tengjast hafa átt sér stað.

Ráðstöfun 112 forfjármögnunarinnar og breytingavalréttarins er háð innra lánasamþykki kröfuhafa LBI.

Kröfuhafar LBI myndu veita afsöl til aðila, þ.m.t. SÍ og Íslands.

Framkvæmdahópurinn hefur staðfest að tillögur kröfuhafa LBI séu í samræmi við rammann sem studdur er af stýrinefndinni og leggur til að veitt verði undanþága á grundvelli tillagna kröfuhafa í slitabú LBI. Ef Seðlabanki Íslands veitir undanþágu frá gjaldeyrishöftunum á grundvelli tillagna kröfuhafa í slitabú LBI, skulu þær eignir sem eftir eru í slitabúi LBI ekki lengur sæta gjaldeyrishöftum og skulu tiltækar til útgreiðslu til kröfuhafa í slitabúið í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í íslenskum lögum  Auk þess byggir tillaga kröfuhafa LBI á forsendu um lagabreytingar og/eða að fyrirframúrskurða í skattamálum sé þörf til að tryggja að nauðasamningur leiði ekki til þess að LBI eða kröfuhafar hans þurfi að greiða skatt vegna nauðasamningsins, (t.d. skatt á eftirgjöf skulda eða útgáfu skulda- og hlutabréfa til kröfuhafa).

Upplýsingafundir framkvæmdahópsins við aðila sem verða fyrir áhrifum fyrirhugaðrar afléttingar gjaldeyrishaftanna eiga sér enn stað.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum