Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun launa starfsmanna sem heyra undir kjararáð

Laun starfsmanna sem kjararáð ákveður hafa hækkað hlutfallslega minna en laun á almennum vinnumarkaði og laun ríkisstarfsmanna sem ekki heyra undir kjararáð. Þannig hafa laun þeirra síðastnefndu hækkað um um það bil 66% frá miðju ári 2006 til loka árs 2014 en laun embættismanna undir kjararáði um tæp 50%. Laun forstjóra félaga í eigu ríkisins eru svipuð nú og þau voru árið 2010.

Í tilefni af svari við fyrirspurn frá Sigurði Erni Ágústssyni til fjármála- og efnahagsráðherra, (þskj. 919-536. mál) um launaþróun þeirra ríkisstarfsmanna sem kjararáð ákveður og annarra starfsmanna á sama tíma hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið tekið saman frekari upplýsingar um launaþróun þessara ríkisstarfsmanna. Um er að ræða embættismenn (þ.m.t. forstöðumenn ríkisstofnana), forstjóra félaga í eigu ríkisins og alþingismenn og launaþróunin borin saman við aðra opinbera starfsmenn og starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Launaþróun 2006-2014

Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig launavísitölur fyrir embættismenn sem heyra undir kjararáð, þingmenn og forstjóra félaga í eigu ríkisins hafa þróast í samanburði við aðra sem starfa hjá hinu opinbera og starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Í lok árs 2008 og á árinu 2009 sættu margir hópar launalækkun, þar á meðal embættismenn. Kjararáð ákveður laun og önnur kjör embættismanna samkvæmt lögum nr. 47/2006. Laun embættismanna sem heyra undir kjararáð voru lækkuð með lögum nr. 148/2008 á árinu 2009, en lækkunin tók gildi 1. mars það ár. Voru laun lækkuð á bilinu 5% til 15%. Í samræmi við fyrrnefnd lög var launalækkunin færð til baka með ákvörðun kjararáðs 1. október 2011

Almennar hækkanir á kjörum embættismanna hafa verið þrjár frá árinu 2011; 3,5% í mars 2012, 3,25% í mars 2013 og 3,4% í febrúar 2014 eða samtals uppsafnað 10,5%.  Samhliða þessum almennu hækkunum hefur kjararáð einnig úrskurðað sérstaklega vegna ákveðinna hópa embættismanna. Launaþróun embættismanna fyrir tímabilið 2006-2014 var jákvæð um 49%.

Laun alþingismanna þróuðust líkt launum embættismanna þó að hækkunin fyrir tímabilið 2006-2014 hafi verið aðeins lakari, eða um 38%. Ástæðan er einna helst sú að aðeins var um almennar hækkanir að ræða.

Forstjórar félaga í eigu ríkisins færðust undir ákvörðunarvald kjararáðs með lögum nr. 87/2009 og hafa fengið laun samkvæmt ákvörðun kjararáðs frá febrúar 2010. Í hópnum eru alls 29 forstjórar. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að laun forstjóranna hafi lækkað um 15% eftir að þeir færðust undir kjararáð þó vitað sé að laun einstakra aðila hafa verið lækkuð meira. Laun forstjóra félaga í eigu ríkisins eru svipuð nú og þau voru árið 2010.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum