Hoppa yfir valmynd
27. mars 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Óskað eftir umsögnum um grænbók Evrópusambandsins um fjármálamarkaðsbandalag

Fjármála- og efnhagsráðuneytið óskar eftir umsögnum haghafa um grænbók Evrópusambandsins um stofnun fjármálamarkaðsbandalags (e. Capital Markets Union) sem kom út 18. mars sl.

Markmið með stofnun fjármálamarkaðsbandalags er að koma á fót virkari innri markaði með fjármagn svo auka megi fjölbreytni í fjármögnun fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Með því má skapa störf og auka hagvöxt í Evrópu.

Mikilvægt er að Ísland að fylgist með stefnumörkun framkvæmdastjórnarinnar á þessu sviði svo og þeim tillögum sem settar verða fram í kjölfarið, enda er líklegt að þær muni hafa bein áhrif á umgjörð fjármálamarkaðarins á Íslandi og falla undir EES-samninginn. Samráðið innan Evrópusambandsins stendur til 13. maí nk.

Því er óskað eftir að haghafar skili inn umsögnum við grænbókina eigi síðar en föstudaginn 17. apríl 2015. Umsagnir skulu sendar til [email protected]Ef spurningar vakna vinsamlegast hafið samband við fjármála- og efnahagsráðuneytið n.t.t. Evu H. Baldursdóttur eða Guðmund K. Kárason.

Helstu atriði:

Í grænbókinni kemur fram að meðal þess sem staðið hefur evrópskum fyrirtækjum fyrir þrifum er að í mörgum ríkjum er fjármögnun mjög háð bankakerfinu. Um 80% fjármögnunar evrópskra fyrirtækja kemur frá bönkum, en um 20% með útgáfu skuldabréfa. Í Bandaríkjunum eru fyrirtæki að stærstum hluta til fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa og þar fá meðalstór fyrirtæki fimm sinnum meiri fjármögnun frá fjármálamörkuðum en í Evrópusambandinu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill bregðast við þessu með því að stuðla að aukinni fjölbreytni í fjármögnun fyrirtækja, þvert á landamæri, og minnka þannig kerfisáhættu tengda bankakerfinu í hverju aðildarríki og innan Evrópu. Einnig þarf að bregðast við ólíkum aðstæðum við fjármögnun fyrirtækja (e. financing conditions) í aðildarríkjum ESB sem og mismunandi reglum og markaðsvenjum varðandi  fjármögnunarleiðir (e. securitised instruments) og lokuð útboð (e. private placements). Einnig er talið óhagstætt að hluthafar og aðrir sem sýsla með fyrirtækjaskuldir (e. buyers of corporate debt) leita sjaldan yfir landamæri í fjárfestingarskyni og mörg lítil og meðalstór fyrirtæki hafa takmarkaðan aðgang að fjármagni.

Bandalag á fjármagnsmarkaði ætti samkvæmt grænbókinni að: 

  • Hámarka ávinning af fjármálamörkuðum fyrir efnahagslífið, atvinnu og hagvöxt
  • Skapa innri markað fyrir fjármagn með því að fjarlægja hindranir í fjárfestingum yfir landamæri og þróa sterkari tengsl við alþjóðlega fjármálamarkaði
  • Byggja á sterkum grunni fjármálastöðugleika, með samræmdu regluverki fyrir fjármálaþjónustu (e. single rulebook) sem er framfylgt með virkum hætti
  • Tryggja árangursríka vernd fyrir neytendur og fjárfesta
  • Aðstoða við að laða að fjárfesta alls staðar að úr heiminum og auka samkeppnishæfni Evrópusambandsins.

Grænbókin fjallar einnig um  hvernig sigrast megi á öðrum hindrunum fyrir skilvirkri starfsemi markaða til skemmri og lengri tíma litið, þ. á m. hvernig draga megi úr kostnaði við að setja upp og starfrækja sjóði, hvernig þróa megi áfram starfsemi áhættufjármagnssjóða og hvort ástæða er til að leggja til breytingar á reglum á sviði gjaldþrotaréttar, félagaréttar, verðbréfaviðskipta og skattlagningar.

Grænbókinni er ætlað að hrinda af stað umræðu meðal þingmanna, aðildarríkja ESB, aðila í fjármálageiranum og annarra hagsmunaaðila, þ.m.t. einstaklinga og óháðra félagasamtaka um hvernig koma megi þessu bandalagi á fót. Samráðið á grundvelli grænbókarinnar stendur til 13. maí 2015 og á grunni þess mun framkvæmdastjórnin gefa út aðgerðaáætlun með vegvísi og tímaramma um hvernig leggja megi grunn að þessu nýja bandalagi sem ráðgert er að taki til starfa árið 2019.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum