Hoppa yfir valmynd
20. mars 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hægt að spara verulega með sameiginlegum innkaupum

Hægt er að spara 2-4 milljarða króna á ári í innkaupum ríkisins með því að leggja áherslu á sameiginleg innkaup, örútboð og skuldbindandi viðskipti við færri birgja. Þetta kemur fram í niðurstöðum starfshóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í fyrravor. Hópurinn hefur unnið greiningu á vöru- og þjónustuinnkaupum ríkisins, auk þess að skoða leiðir til að gera núverandi innkaupsaðferðir markvissari og árangursríkari. 

Hópurinn leggur til að strax í ár verði tekin fyrstu skref að sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana en árlega kaupir ríkið vöru og þjónustu fyrir um 88 milljarða króna. 

Starf hópsins leiddi í ljós að ríkið hefur takmarkaðar upplýsingar um innkaup sín í mörgum vöruflokkum og litla yfirsýn á innkaupsverði og hagræðingartækifærum. Í dag eru rammasamningar algengasta form innkaupa en þetta fyrirkomulag veitir ríkinu ekki lægsta mögulega verð. Þá hefur innkaupastefna sem unnin hefur verið ekki verið innleidd til fulls. Hópurinn telur að með  nýjum áherslum megi ná fram verulegri hagræðingu í  innkaupum á vöru og þjónustu, sem nemur allt að fjórum milljörðum króna árlega. 

Greining hópsins á vöru- og þjónustuinnkaupum ríkisins leiddi í ljós að árangur stofnana þegar kemur að hagkvæmum innkaupum er misjafn og dæmi eru um stofnanir sem hafa náð góðum árangri í þessum efnum. 

Í ljós kom að verulegur verðmunur kann að vera á sambærilegum vörum í innkaupum stofnana og spara megi verulega með sameiginlegum innkaupum. Svo dæmi sé tekið yrði hægt að lækka útgjöld um 170 milljónir króna á ári með sameiginlegum innkaupum á tölvum. 

Starfshópurinn lagði fram eftirfarandi tillögur til að auka skilvirkni í opinberum innkaupum:

  • Gera þarf langtímaáætlanir í innkaupum og tengja við framkvæmd fjárlaga.
  • Ríkið þarf að beita innkaupaaðferðum með markvissari hætti t.d. með sameiginlegum innkaupum, örútboðum og fækkun birgja.
  • Bæta þarf upplýsingakerfi svo að ríkið hafi yfirsýn yfir innkaup sín og geti sett sér markmið um hagræðingu.
  • Búa þarf til hvatakerfi fyrir stofnanir og birgja/seljendur.
  • Mikilvægt að leigugreiðslur endurspegli markaðsleigu á hverjum tíma og að stofnanir hafi hag af því að hagræða í húsnæðismálum sínum. 
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur kynnt niðurstöður starfshópsins í ríkisstjórn. Ákveðið hefur verið að skipa verkefnisstjórn um nýjar áherslur í innkaupamálum, en verkefni hennar verður að ná fram skipulagsbreytingum og aukinni skilvirkni í innakaupamálum ríkisins.

Í starfshópi vegna nýrra áherslna í opinberum innkaupum sátu Jón Björnsson, formaður, Jón Diðrik Jónsson, Jakob V. Finnbogason, Guðrún Ögmundsdóttir og Birna G. Magnadóttir. Pétur Berg Matthíasson var starfsmaður hópsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum