Hoppa yfir valmynd
19. mars 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla nefndar um skuggabankastarfsemi

Nefnd um skuggabankastarfsemi sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í apríl 2014 hefur skilað skýrslu til ráðherra. Nefndini var falið að kortleggja skuggabankakerfið á Íslandi, hugsanleg áhrif aukinna krafna á fjármálafyrirtæki á aðra þætti fjármálakerfisins og alþjóðlega þróun á þessu sviði.

Stofnað var til nefndarinnar í ljósi yfirstandandi umbóta á lagalegri umgjörð fjármálakerfisins en m.a. geta auknar kröfur um eigið fé, lausafé og áhættustýringu, auk fjármagnshafta, leitt til ruðningsáhrifa á aðra þætti kerfisins og óæskilegrar áhættu. 

Í starfi sínu leit nefndin til vinnu við þróun löggjafar um fjárfestingarsjóði að evrópskri fyrirmynd og tillagna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um löggjöf um peningamarkaðssjóði. Þá var skoðuð erlend löggjöf um sértækar fjárfestingareiningar.

Nefndin fjallaði um alþjóðlegar skilgreiningar á skuggabankastarfsemi og mögulegar leiðir til mælinga á umfanginu. Samkvæmt athugunum Seðlabanka Íslands er skuggabankakerfið hér á landi minna en víða annars staðar. Tengsl þess við hefðbundið bankakerfi eru þó meiri og aðstæður til vaxtar kerfisins eru fyrir hendi, ekki síst vegna sjóðsöfnunar lífeyrissjóða og fjármagnshafta. 

Nefndin leggur til að áfram verði unnið að bættri gagnasöfnun sem tengist skuggabankastarfsemi.  Auk þess leggur hún áherslu á að lokið verði við innleiðingu Evrópulöggjafar á þessu sviði áður en ráðist verður í mótun séríslenskrar löggjafar, að undanskildu því að umbætur verði gerðar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum