Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Heimildir samræmdar til að veita erlend lán

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram breytingar á lögum sem ætlað er að tryggja að heimildir til að veita erlend lán verði samræmdar. Varða breytingarnar helst þá áhættu sem getur stafað af slíkum lánveitingum, ekki síst þegar í hlut eiga lántakar sem almennt hafa tekjur í íslenskum krónum. Slík áhætta varðar ekki aðeins hlutaðeigandi lántaka heldur jafnframt lánveitendur og fjármálakerfið í heild sinni.

Í aðdraganda afnáms fjármagnshafta þykir brýnt að heimildir eftirlitsaðila til að takmarka gjaldeyrisáhættu innlendra aðila verði styrktar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingum á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, og lögum um neytendalán, nr. 33/2013.

Frumvarpið felur m.a. í sér að hugtakið erlent lán verði notað sem samheiti yfir lán í erlendum gjaldmiðlum og gengistryggð lán í íslenskum krónum og að heimilt verði að veita slík lán nema lög mæli á annan veg. Dómar Hæstaréttar í svokölluðum gengistryggingarmálum bera þess merki að umrædd lán eigi sér ríka samsvörun með tilliti til þeirrar áhættu sem af þeim stafar en auk þess er tillagan gerð með hliðsjón af hagsmunum atvinnulífsins og sjónarmiðum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem taldi í rökstuddu áliti frá 22. maí 2013 að fortakslaust bann íslenskra laga við gengistryggingu væri ekki í samræmi við meginreglu EES-samningsins.

Í frumvarpinu er lagt til að Seðlabankinn, á grundvelli tilmæla fjármálastöðugleikaráðs, fái heimild til að setja reglur um erlend lán lánastofnana. Heimildin felur í sér að unnt verður binda slíkar lánveitingar ákveðnum skilyrðum sem varða tekjur lántaka, tegund trygginga, upplýsingaskyldu lánveitanda, lengd lánstíma og tilhögun endurgreiðslna. Aðkomu fjármálastöðugleikaráðs er ætlað að renna stoðum undir tilgang reglnanna og samhæfa aðgerðir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands á þessu sviði en skilyrðin gætu verið breytileg eftir aðstæðum og eftir einstökum flokkum lántaka.

Þá er í frumvarpinu hugað að því að verja neytendur fyrir gjaldeyrisáhættu. Lagt er til að fram fari greiðslumat þegar neytandi tekur lán sem tengist öðrum gjaldmiðli en viðkomandi hefur tekjur í. Er þá gert ráð fyrir að óheimilt verði að veita slíkt lán nema greiðslumatið leiði í ljós að lántaki hafi augljóslega fjárhagslega burði til að standast verulegar breytingar á gengi þess gjaldmiðils sem tekjur lántaka eru í samanborið við þann gjaldmiðil sem lánið er í eða tekur mið af. Ennfremur er lagt til að ráðherra geti að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands bundið greiðslumat vegna erlendra lána sérstökum skilyrðum ef aðstæður knýja á, svo sem þeim að slík lán verði ekki veitt nema neytandi standist greiðslumat í viðkomandi gjaldmiðlum.

Frumvarpið byggist að hluta á tillögum nefndar sem falið var að endurskoða bann íslenskra laga við gengistryggingu og fjalla um varúðarreglur vegna hættu sem fjármálakerfinu stafar af erlendum lánum. Í nefndinni sátu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum