Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fitch breytir horfum um lánshæfi ríkissjóðs í jákvæðar

Matsfyrirtækið Fitch birti í dag lánshæfismat fyrir ríkissjóð. Horfur eru nú jákvæðar en voru áður metnar stöðugar og langtímaeinkunnir í erlendri og innlendri mynt voru staðfestar í BBB og BBB+.

Í rökstuðningi fyrirtækisins kemur fram að samningar um lengingu í afborgunarferli á skuldabréfi Nýja Landsbankans vógu einna þyngst við breytingu á horfum í lánshæfismati ríkissjóðs í jákvæðar. Samningarnir voru gerðir samhliða veitingu undanþágu frá gjaldeyrishöftum og fólu í sér  400 ma.kr. greiðslu til forgangskröfuhafa í gamla Landsbankanum. Samningar um breytta skilmála skuldabréfsins auk undanþágunnar vegna greiðslu til forgangskröfuhafa voru mikilvæg skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta að sögn matsfyrirtækisins.

Batnandi afkoma ríkissjóðs og opinberra fjármála hafði einnig jákvæð áhrif á breytingu á horfum í lánshæfismati ríkissjóðs að mati Fitch. Heildarjöfnuður var jákvæður á árinu 2014 og frumjöfnuður hefur verið jákvæður síðan 2012. Skuldahlutfall hefur batnað verulega bæði vegna bættrar afkomu ríkisfjármála sem og hagvaxtar. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum