Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kjaraþróun starfsmanna ríkisins í samanburði við almennan vinnumarkað

  • Kjarasamningar ríkisins á árinu 2014 tóku mið af þeirri stefnumótun sem aðilar á vinnumarkaði komu sér saman um í aðdraganda gerðar kjarasamninga á sl. ári. Undanteknar frá þessu eru afmarkaðar og taka til tiltölulega fámennra hópa þar sem samið var um grundvallarbreytingar á þeirri starfsemi sem í hlut á.
  • Ljóst er við samanburð á launaþróun starfsmanna ríkisins við launaþróun á almennum markaði að staðhæfingar um að ríkið hafi verið leiðandi í kjaraþróuninni eiga ekki við rök að styðjast.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið að því með öðrum aðilum vinnumarkaðarins að bæta aðferðir við gerð kjarasamninga, með það að markmiði að tryggja stöðugan vöxt kaupmáttar launa í stað þess að horfa til nafnlaunahækkana. Þessi aðferðafræði hefur tryggt umtalsverða kaupmáttaraukningu undanfarið ár. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands var tólf mánaða hækkun launa í desember sl. 6,6% en á sama tímabili hækkaði verðlag um 0,8%.  Það má telja ólíklegt að hér á landi hafi áður farið saman eins hagstæð þróun á sviði kaupmáttar, hagvaxtar og verðlags. Því miður hefur þessum mikla árangri ekki verið haldið á lofti í aðdraganda nýrra kjarasamninga. Engu að síður eru augljós tækifæri til að halda áfram á sömu braut og mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman um að nýta þau.

Að undanförnu hefur því verið haldið fram að kjarasamningar ríkisins hafi raskað jafnvægi á vinnumarkaði og að hækkanir á launum ríkisstarfsmanna hafi verið úr takti við aðra launaþróun. Upplýsingar um launaþróun styðja ekki slíkar fullyrðingar og því er ástæða til að draga fram lykilupplýsingar um þessa þætti.

Samanburður á tekjuþróun

Ef litið er til launaþróunar frá þriðja ársfjórðungi 2013 til þriðja ársfjórðungs 2014 hafa laun ríkisstarfsmanna hækkað um 6,8% sem er meira en á almennum vinnumarkaði en þar hækkuðu laun um 5,9%. Ef litið er til launaþróunar undanfarinna ára hafa laun starfsmanna ríkisins hækkað minna en laun á almennum vinnumarkaði sbr. meðfylgjandi mynd sem sýnir vísitölu launa ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði frá 2005 til þriðja ársfjórðungs 2014 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Frá árinu 2010 hefur dregið í sundur með þessum hópum og breytir þróunin á síðasta ári ekki þeirri mynd.

Vísitala launa ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði frá 2005 til þriðja ársfjórðungs 2014

Launastefna og kjarasamningar ríkisins

Launastefna ríkisins felur í sér að ríkið greiði samkeppnishæf laun án þess að vera launaleiðandi. Í þessu felst að leitast er við að launaþróun einstakra hópa ríkisstarfsmanna sé svipuð og sambærilegra hópa á almennum vinnumarkaði.

Hafa þarf í huga að launamyndun á almennum vinnumarkaði er aðeins að hluta til ákvörðuð í kjarasamningum en launaskrið hefur ekki síður áhrif á þróunina. Þegar ríkið hefur samið með sama hætti og gert er á almennum vinnumarkaði, hefur launaskrið á almennum markaði þýtt að laun ríkisstarfsmanna dragast aftur úr almennri launaþróun. Launasamanburður bendir til þess að launamunur milli ríkisstarfsmanna og starfsfólks á almennum vinnumarkaði aukist heldur eftir því sem laun eru hærri. Það er því nokkur hætta á því að launaskrið á almennum vinnumarkaði skapi ójafnvægi og leiði til þessað millitekjuhópar opinberra starfsmanna sitji eftir í launaþróuninni.  

Þeir kjarasamningar sem ríkið hefur nýlega gert við framhaldsskólakennara og lækna endurspegla ofangreinda þróun. Ástæða er til að vekja athygli á því að þessir samningar eru til langs tíma, þannig að þær prósentuhækkanir sem fram koma í þeim og vitnað hefur verið til, eru því ekki  sambærilegar við þær hækkanir sem almennt var samið um árið 2014. Það er ekki rétt að bera saman 3% hækkun í kjarasamningi til skemmri tíma við hækkanir í kjarasamningum til langs tíma.

Yfirlit kjarasamninga frá haustinu 2013

Samninganefnd ríkisins (SNR) hefur lokið þeirri samningalotu sem hófst með undirritun viðræðuáætlana haustið 2013. Starfsmenn ríkisins eru um 12% af vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði. Skrifað var undir 49 kjarasamninga við samtals 124 stéttarfélög.

Í aðdraganda kjarasamninga 2014 tóku helstu aðilar á vinnumarkaði sig saman og lögðu á ráðin um endurbætur á vinnulagi við kjarasamninga og stefnt var að mótun nýs íslensks kjarasamningslíkans að norrænni fyrirmynd. Liður í þeirri vinnu var útgáfa skýrslnanna Í aðdraganda kjarasamninga sem út kom í október 2013 og Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum, sem gefin var út í maí 2013.

Þegar ljóst varð að ekki tækist að ná saman um samninga til lengri tíma var ákveðiðað gera samninga til styttri tíma.Í samræmi við þessa stefnumörkun lagði ríkið því upp með að gera skammtíma kjarasamninga með hóflegum launahækkunum líkt og var gert á almennum markaði. Megininntak samninganna var 2,8% launahækkun og hækkun lágmarkstaxta. Í öllum samningum ríkisins var samið um að persónuuppbót hækkaði í 73.600 kr., orlofsuppbót yrði 39.500 kr. og framlag til fræðslu – og starfsmenntasjóða hækkaði um 0,1% líkt og samið var um á almennum markaði.

Samningar við 87% starfsmanna ríkisins voru því í takt við það sem áður hafði verið samið um á hinum almenna markaði en þrír samningar vegna 13% starfsmanna ríkisins skera sig úr. Þetta eru samningar við lækna og framhaldsskólakennara, en í þeim voru gerðar breytingar á vinnufyrirkomulagi og launauppbyggingu þessara stétta.

ASÍ og BSRB

Samningar við aðildarfélög ASÍ (31 stéttarfélag og rúm 6% ríkisstarfsmanna) og BSRB (25 stéttarfélög sem eru með um þriðjung ríkisstarfsmanna) gilda í 15 mánuði, frá 1. febrúar 2014 til 30. apríl 2015. Megininntak þeirra samninga er 2,8% launahækkun en þó aldrei lægri en sem nemur 8.000 kr. mánuði. Eingreiðsla upp á 14.600 kr. var í upphafi samnings, en 20.000 kr. í lok hans vegna gildistíma umfram almennan markað. Lágmarkstekjur skv. samningnum skyldu ekki vera lægri en 214.000 kr.. Þessar launahækkanir eru að meðaltali metnar á 3,51% á árinu 2014.

Helstu atriði í samningum ríkisins við ASÍ og BSRB

Dagsetningar Hækkun Skýring
1. mars  2014 2,8%, lágmark 8.000 kr. Almenn launahækkun
1. mars  2014 1.750 kr. Hækkun launataxta undir 230 þús.kr.
1. mars  2014 14.600 kr. Eingreiðsla (m.v. fullt starf)
1. apríl 2015 20.000 kr. Eingreiðsla (m.v. fullt starf)

BHM og skyldir aðilar

Samningar ríkisins og flestra félaga BHM (25 stéttarfélög og 30% ríkisstarfsmanna) eru til 13 mánaða eða frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015. Þar var einnig grunnhækkun upp á 2,8% en einnig var leiðrétt bil milli launaflokka og þrepa í launatöflu. Í samningnum er bókun um endurskoðun á umhverfi stofnanasamninga og skal verja til þess allt að 200 milljónum króna. Gera má ráð fyrir að launahækkanir vegna samningsins séu að meðaltali um 3,6% á árinu 2014. Sextán stéttarfélög BHM skrifuðu undir sameiginlegan samning en átta félög voru með ýmis sérmál sem var gengið frá í sérstökum samningum en höfðu óverulega kostnaðaraukningu í för með sér.

Helstu atriði í samningum BHM

Dagsetning Hækkun Skýring
1. feb. 2014 2,8% Lágmarkshækkun
1. feb. 2014 Breyting á bilum milli launaflokka og þrepa í launatöflu  

Fjölmörg önnur stéttarfélög er standa utan bandalaga sömdu við ríkið á sömu nótum og kemur fram hér að framan en í þessum stéttarfélögum eru rúmlega 20% ríkisstarfsmanna en þeirra fjölmennast er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Kennarasamband Íslands

Í kjarasamningi við Kennarasamband Íslands vegna framhaldsskólakennara (u.þ.b. 8% starfsmanna ríkisins) var samið til lengri tíma en almennt var gert og gildir hann frá 1. mars 2014 til 31. október 2016 eða í 32 mánuði. Grunnhækkun er 2,8% árið 2014, 2% 1. janúar2015 og 2% 1. janúar2016, en aðrar launahækkanir samningsins eru háðar innleiðingu á nýju vinnumati framhaldsskólakennara og að ráðist verði í kerfisbreytingar á framhaldsskólakerfinu á komandi árum.

Helstu atriði í samningum KÍ

Dagsetning Hækkun Skýring
1.03.2014 2,8% Almenn hækkun.
1.03.2014 4% Vegna tiltekinna breytinga í samningnum.
1.08.2014 5% Vegna tiltekinna breytinga í samningnum.
1.01.2015 2% Almenn hækkun.
1.03.2015 - Atkvæðagreiðsla um vinnumat og nýjan vinnutímakafla.
1.05.2015 8% Vegna gildistöku vinnumat og nýs vinnutímakafla.
1.01.2016 2% Almenn hækkun.

Læknafélag Íslands og Skurðlæknafélag Íslands

Í kjarasamningum vegna lækna (u.þ.b. 5% starfsmanna ríkisins) var einnig samið til lengri tíma en almennt var gert og gilda þeir frá 1. júní 2014 til 30. apríl 2017 eða í 35 mánuði. Meginbreytingarnar eru sem hér segir: Samið var um launatöflu með fleiri flokkum og þrepum en áður. Var það gert til að hægt væri að færa fasta kjarasamningsbundna yfirvinnutíma (allt að 15 klst á mánuði) inn í launatöflu auk stjórnunarálags (allt að 20% reiknað af launatölu) og menntunarálags (5% af launatölu). Aðferð við yfirfærslu byggir á því að núverandi stjórnunarálag starfsmanns færi lækni upp um einn flokk (3%) miðað við hver 5% í núverandi kerfi, en þó að hámarki 5 launaflokka, en doktorspróf færi hann upp um tvo launaflokka. Að auki var samið um skilgreiningar á hvaða starfsbundnir þættir verði lagðir til grundvallar mati á tilfærslu milli launaflokka í framtíðinni.

Frá og með 1. janúar 2016 verður tekin upp ný tilhögun á bæði vinnufyrirkomulagi og greiðslutilhögun vegna vinnu utan dagvinnu. Fallið er frá þeirri framkvæmd að ákveða samkvæmt fyrirfram gerðu mati tiltekinn fjölda útkalla á bakvakt og greiða fast einingaverð vegna greiðslna í útköllum og vegna bakvakta. Þess í stað verður farin sú leið greiða bakvaktarálag og yfirvinnu fyrir útköll eftir stimplun og að miða einingaverð vegna yfirvinnu og gæsluvakta við tiltekið hlutfall af mánaðarlaunum eins og almennt er gert hjá öðrum félögum.

Helstu atriði í samningum LÍ og SKÍ

Dagsetning Hækkun Skýring
1.6.2014 3,6% Almenn hækkun.
1.1.2015 10,2% Launatöflubreyting.
1.6.2015 4,5% Launapottur.
1.1.2016 2,5% Almenn hækkun.
1.1.2016 4,0% v/ breytinga á greiðslum fyrir vinnu utan dagvinnu.
1.1.2017 1,5% Almenn hækkun.

Samantekt

Af framangreindu má ráða að almennir kjarasamningar ríkisins á árinu 2014 tóku mið af þeirri stefnumótun sem aðilar á vinnumarkaði komu sér saman um í aðdraganda gerðar kjarasamninga á sl. ári. Undanteknar frá þessu eru afmarkaðar og taka til tiltölulega fámennra hópa þar sem samið var um grundvallarbreytingar á þeirri starfsemi sem í hlut á.

Ennfremur er ljóst við samanburð á launaþróun starfsmanna ríkisins við launaþróun á almennum markaði að staðhæfingar um að ríkið hafi verið leiðandi í kjaraþróuninni eiga ekki við rök að styðjast.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum