Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna fréttar Rúv um breytingar á virðisaukaskatti

Í hádegisfréttum Rúv í dag var fjallað um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti. Í tilefni fréttaflutningsins áréttar fjármála- og efnahagsráðuneytið að engin handvömm átti sér stað í ráðuneytinu við útgáfu frumvarpsins líkt og fullyrt er í fréttinni. 

Í fylgihefti frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 er tekið fram vegna áforma um skattkerfisbreytingar að við frágang á frumvarpi um tekjuráðstafanir hafi endanleg útfærsla þeirra breytinga að nokkru leyti orðið önnur en miðað var við á fyrri stigum við frágang tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins. Þar er vísað til greinargerðar með frumvarpi um útfærslu á skattkerfisbreytingunum, þar sem fram kemur að hvaða marki þær eru á annan veg en gengið er út frá í umfjöllun í fjárlagafrumvarpi.  Í greinargerðinni  er gerð ítarleg grein fyrir tillögum um breytingar á viðkomandi skattkerfum og markmiðum með breyttri uppbyggingu þeirra

Þá sagði í frétt Rúv í hádeginu að samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2015 hafi hækkun skatts á matvæli í 11% átt að koma til framkvæmda árið 2016, sem er ekki rétt. Í frumvarpinu kom fram að hækka ætti skattinn í tveimur þrepum, í 11% árið 2015 en í 14% árið 2016.

Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar fyrir aðra umræðu fjárlaga verður efra þrep virðisaukaskatts 24%, neðra þrep 11% og vörugjöld verða afnumin. Breytingarnar taka gildi 1. janúar 2015.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum