Hoppa yfir valmynd
9. október 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Traust stoð opinberrar fjármálastjórnar mikilvæg

Bjarni Bendiktsson á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Mynd: Samband íslenskra sveitarfélaga
Bjarni Bendiktsson á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Mynd: Samband íslenskra sveitarfélaga

Gríðarlega áríðandi er að skjóta traustari stoðum undir samræmda opinbera fjármálastjórn með því að endurskoða formlegan samstarfsvettvang ríkis og sveitarfélaga, en ekki síður með endurskoðun lagaumhverfis. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í ræðu á fjármálastefnu sveitarfélaganna í dag.


Bjarni ræddi áralangt samstarf rkis og sveitarfélaga í efnahagsmálum. „Í samstarfssáttmálum ríkis og sveitarfélaga hafa að jafnaði verið sett fram markmið í hagstjórnarlegu tilliti og stefnt að því að ná fram þeim efnahagslegu markmiðum sem ríkisstjórnin og Alþingi hefur ákvarðað á hverjum tíma,“ sagði Bjarni.

„Ég held hins vegar að að við getum verið sammála um það, og það er eitt af því sem var sérstaklega rætt eftir hrunið, að þetta samstarf hefur ekki skilað nægilega miklum árangri. Þá er ég að vísa til þess að menn hafa ekki gengið nægilega mikið í takt. Þegar við horfum aftur í tímann þá sjáum við til dæmis að ríkið var þegar spennan var að myndast í hagkerfinu að reyna að grípa til aðgerða eins og að draga úr framkvæmdum. En á sama tíma voru framkvæmdir mjög að aukast á sveitarstjórnarstiginu. Og það má heita alveg óumdeilt að tímabilið, síðustu fimm árin í aðdraganda hrunsins, einkenndist af því að menn voru að ganga hver í sína áttina,“ sagð ráðherra. Þetta hefði orðið tilefni til þess að skoða samstarfið, bæði samstarfsvettvang og lagaumgjörð í því skyni að treysta stoðir samræmdrar opinberrar fjárstjórnar.

Aukin umsvif sveitarstjórnarstigsins

Bjarni benti á að umsvif sveitarstjórnarstigsins hefðu vaxið mjög á undanförnum árum. „Nú er svo komið að um 30% opinberra útgjalda fara um sveitarstjórnarstigið. Skuldir opinberra aðila eru um 11% hjá A-hluta sveitarfélaganna og við erum alltaf að ræða um það að halda áfram að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga þannig að það er mjög áríðandi að umgjörðin sé traust.“

Því næst ræddi Bjarni um nýtt frumvarp um opinber fjármál, sem lagt var fyrir Alþingi sl. vor og verður rætt á yfirstandandi þingi.„Með þessu frumvarpi, sem fjallar um opinber fjármál, en er ekki bara um fjárreiður ríkisins eins og gildandi lög í dag, er reynt að sauma betur saman þetta samstarf, þetta samtal og þær áherslur sem eru á hvoru stigi fyrir sig, en heildaryfirsýn og langtímahugsun er kjarnaatriði.“

Frumvarpinu fylgdi að eftirlit yrði styrkt með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár. „Einn liður í þessu starfi er að umgjörð um þróun fjármála sveitarfélaga hefur líka verið styrkt. Við teljum allar forsendur til þess að hefjast handa við að móta fjármálastefnu sem nær til hins opinbera í heild,“ sagði ráðherra. 

Hann sagði að lög um fjárreiður ríkisins hefðu á sínum tíma þótt framsækin, en nú væri komið að því að endurskoða þau. Þau tækju einungis til ríkissjóðs og þótt með þeim hafi verið skapaður samstarfsvettvangur við sveitarstjórnarstigið væri ekkert í lögunum um formlegt samstarf með þeim hætti sem nú væri verið að horfa til með nýju frumvarpi.Í þeirri stefnumótun sem lagt væri upp með í nýju frumvarpi væri samkomulag við sveitarfélög einn grundvallarþátta. 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ný ríkisstjórn leggi fram til næstu ára fjármálastefnu um hvernig taka eigi á opinberum fjármálum, þróun skulda, skattastefnu og fleiri stórra þátta en einnig komi til árleg fjármálaáætlun.Með frumvarpinu sé frekar horft á stóra þætti.  Fjárlög verða samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi ekki flokkuð eftir ráðuneytum heldur málasviðum og síðan málaflokkum undir málasviðum. Gildissvið laganna verði mun víðtækara og horft verði til A- og B-hluta í rekstri sveitarfélaga. „Þess vegna er þetta nýja heiti, frumvarp til laga um opinber fjármál,“ sagði Bjarni.

Breið samstaða

Hann sagði að næstu skref væru að ræða frumvarpið í þinginu. „Mér sýnist vera breið samstaða í þinginu um að gera þær breytingar sem fylgja frumvarpinu. Frumvarpið hefur verið í smíðum í nokkur ár. Á lokametrunum lagði ég áherslu á að koma fjármálareglunum inn til viðbótar en það hafa í sjálfu sér nær allir flokkar með einum eða öðrum hætti komið að undirbúningi málsins þannig að ég tel að þinglega meðferðin verði ekki þung í vöfum þótt það þurfi að vanda til verka.“

Umsagnir hafi fengist eftir að frumvarpið var lagt fram í vor og breytingar verið gerðar í samræmi við þær ábendingar sem komu. „Við leggjum frumvarpið fram aftur núna og ég vonast til þess að það verði afgreitt fyrir áramót. Miklu skiptir að það er þegar farið að ræða hvernig við getum undirbúið þetta mikilvæga samráð sem þarf að eiga sér stað milli ríkis og sveitarfélaga, hvernig fjármálastefnan og fjármálaáætlunin getur byggst á samtali og upplýsingaskiptum milli þessara tveggja aðila þannig að báðir geti vel við unað. Það skiptir sköpum fyrir árangur í þessu að sveitarstjórnarstigið sé sátt við útkomuna.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum